Sementsverksmiðja ríkisins

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:10:52 (2255)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað að blanda mér í umræðuna eins og hún fór fram í upphafi í gær. Hins vegar var ræða hv. 17. þm. Reykv. þess valdandi að ég sá ástæðu til þess að blanda mér í umræðuna.
    Hv. þm. talaði með þeim tón: Vér einir vitum. Stjórnarliðarnir voru þeir einu sem höfðu vit á einkavæðingu og uppbyggingu hlutafjármarkaðar.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um mína afstöðu til þessa máls og ekki síður afstöðu Framsfl. eins og hún kom fram á síðasta þingi og minna hv. þm. á örfá atriði og þó sérstaklega eitt sem mér sýnist á öllu og heyrðist á ræðu hans í gær að hann hafi verið búinn að gleyma. Það var nefnilega svo að fyrir síðustu áramót var heilmikil umræða hér á þinginu, ekki um einkavæðingu því það er eitt, um annan hlut sem er uppbygging og styrking á hlutabréfamarkaðnum. --- Virðulegi forseti. Ég geri hlé á ræðu minni meðan formaður Alþfl. leggur þingflokksformanninum línuna. Það var hér heilmikil umræða um uppbyggingu og styrkingu okkar veikburða hlutabréfamarkaðar.
    Þá vil ég minna hv. þm. á að í þeirri orrahríð allri var lagt fram stjfrv. að því er okkur var sagt í stjórnarandstöðunni að kröfu Alþfl., þ.e. sá hluti stjfrv. sem var þess eðlis að breyta í grundvallaratriðum þeim reglum sem gilda um skattafrádrátt á arðgreiðslum. Þessar reglur voru þess eðlis að ekki er hægt að hafa eftir í ræðustól Alþingis þau orð sem þeir aðilar sem eru að reyna að byggja upp hlutabréfamarkað og standa í atvinnulífinu höfðu um þessa tillögu stjórnarliðsins. ( ÖS: Ef þú treystir þér ekki til þess fáðu þá Ólaf Þ. Þórðarson). Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram ræðu minni og læt sem ég heyri ekki aulafyndni hv. 17. þm. Reykv.
    Eins og ég sagði eru ekki eftirhafandi hér þau orð sem aðilar vinnumarkaðarins og reyndar fulltrúi ASÍ líka og hlutabréfamarkaðarins höfðu um þá tillögu sem stjórnarliðið að kröfu Alþfl. ætlaði að knýja í gegn. Ég vil minna hv. þm. á að það kom fyrst og fremst í hlut fulltrúa Framsfl. í efh.- og viðskn., þess sem hér stendur að viðbættum 1. þm. Austurl., að berjast fyrir því að ekki yrði samþykkt á Alþingi tillaga sem hefði að mati þeirra sem best þekktu haft ófyrirséðar afleiðingar varðandi alla uppbyggingu á

hlutabréfamarkaði á Íslandi. Og hvað hefði þá orðið um einkavæðinguna, hv. þm.? Hvað hefði orðið um einkavæðinguna ef fyrir fram hefði verið búið að fara þannig með hlutabréfamarkaðinn að mjög ólíklegt var að stórir aðilar, það kom m.a. fram hjá lífeyrissjóðunum, færu að leggja það að fjárfesta í hlutafé? Mér sýnist á öllu að ef hv. þm. er einhver alvara með að vilja stuðla að uppbyggingu virks hlutabréfamarkaðar ætti hann að snúa máli sínu ekki til stjórnarandstæðinga heldur inn á við í sínum flokki. Ég vil spyrja hv. þm.: Treystir hann sér til þess að neita því að þetta atriði, sem ég nefndi, hafi verið komið inn í þetta frv. að kröfu Alþfl.?
    Lyktir þessa máls voru þær að stjórnarflokkarnir komu sér saman um orðalag sem er svo klúðurslegt að annað eins hefur varla sést í lagatexta. Þeir komu sér saman um að setja inn í þennan lagatexta eina grein úr stjórnarsáttmálanum, úr Hvítu bókinni, þess efnis að þetta ákvæði varðandi skattafrádrátt vegna arðgreiðslna yrði lögfest en tæki þó ekki gildi fyrr en búið væri að samþykkja lög um skattlagningu eignatekna. Svona eru nú vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokka þegar kemur að veigamiklum atriðum sem snúa að uppbyggingu hlutabréfamarkaðar og snúa að því að fyrirtækjum hér á landi verði gert kleift að afla sér fjár á markaði. Þetta vil ég rifja upp af því að hv. þm. sá ástæðu til þess að fara út í þessa umræðu.
    Hv. þm. viðhafði þau orð líka að við ættum að láta aðra um þetta en alþingismenn, einhverja sem hefðu vit á rekstri. Nú ætla ég ekki að ræða um vit hv. 17. þm. Reykv. á rekstri. En ég hygg að kannski séum við einhver á þingi sem höfum komið nálægt rekstri. Sá sem hér hefur talað hefur lengst af sinnar ævi unnið fyrir sínu lífsviðurværi með eigin rekstri til viðbótar að hafa komið með stjórnarsetu á síðasta áratug að rekstri sem spannar nánast alla þætti þess rekstrar sem okkar atvinnulíf stendur að. Mér finnst því að hv. þm. eigi að spara sér slík ummæli. Við verðum að vona að innan Alþingis sé til nauðsynlegur skilningur á þörfum atvinnulífsins.
    Um það einstaka mál sem var til umræðu og hv. þm. sá ástæðu til þess að fara út í þessar vangaveltur um hef ég ekki margt að segja sem slíkt. Ég bendi hins vegar á það að tímarnir hafa mjög breyst. Það sem menn töldu eðlilegt fyrir einhverjum áratugum að væri í verkahring ríkisins er það kannski ekki í dag. Hlutirnir voru einfaldlega þannig á fyrri hluta þessarar aldar að það var ekkert fjármagn til í landinu og því mjög eðlilegt á þeim tíma að ríkið hefði forgöngu á mjög mörgum sviðum sem við í dag teljum alls ekkert eðlilegt að það sé að vasast í. Ég tek það skýrt fram að það er alls ekki stefna Framsfl. að ríkið sé með puttana í atvinnurekstrinum í landinu nema að sem minnstu leyti.
    Það er alveg ljóst að ef við förum að lista það upp hvað ríkið á að gera, þá sé ég enga ástæðu út frá grunnhugmyndafræðinni að ríkið sé að reka sementsverksmiðju. Það er svo aftur annað mál að vegna ýmsa þátta, m.a. þeirra að umrætt fyrirtæki er hið eina sinnar tegundar í landinu og orðið samtvinnað ríkiskerfinu, m.a. launa- og eftirlaunakerfinu, er full ástæða til þess að menn gangi þar varlega um dyr.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu mikið, en af því tilefni sem hv. 17. þm. Reykv. gaf í gær sá ég mig knúinn til þess að hafa um þetta nokkur orð.