Sementsverksmiðja ríkisins

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:22:58 (2257)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir tók svo til orða að hann hefði ekki ætlað sér að taka þátt í því að tefja umræðuna. Ég hygg að það hafi verið viturleg ákvörðun hjá honum og satt að segja skil ekki hvers vegna hann féll frá henni.
    Það er einu sinni svo að framsóknarmenn koma hér upp í hrönnum þegar menn tala um einkavæðingu og segja að þeir séu allir með einkavæðingu. Við sem sitjum í þessum sölum heyrum það aftur og aftur að þeir styðji það að fyrirtæki í eigu ríkisins verði gerð að hlutafélögum og mögulega seld. En svo kemur alltaf viðhengið, eins og hjá hv. þm. Í þessu tilviki er það svo að Sementsverksmiðjan, segir þingmaðurinn, er gömul og gróin stofnun og hún er vitaskuld orðin svo samofin ríkiskerfinu hvað varðar lífeyrisréttindi og biðlaunarétt að menn eigi að ganga varlega um dyr. En nákvæmlega þessi rök gilda auðvitað fyrir allar stofnanirnar, öll ríkisfyrirtækin, sem við erum að tala um. Þegar framsóknarmenn koma hingað og segjast í orði vera sammála þessu neita þeir því hins vegar á borði. Mér finnst þetta því ekki vera ýkjagóður málflutningur.
    Ég vil líka segja að því er varðar það sem þingaðurinn sagði um stefnu Framsfl., að hann vildi koma hingað til þess að gera henni skil, þá verð ég að segja að ég treysti alveg hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur til þess að gera það með mjög góðum hætti eins og hún hefur gert.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki tefja þessa umræðu mikið. Ég vil einungis ítreka þá skoðun mína að ég tel að aðrir en alþingismenn séu miklu betur til þess fallnir að reka og vera í stjórnum ríkisfyrirtækja, þ.e. sérfræðingar og ýmsir aðrir út athafnalífinu séu mun betur til þess fallnir heldur en alþingismenn. Ég veit að um það verður þingmaðurinn mér sammála þegar hann hugsar þetta betur.