Frumvarp til jarðalaga

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:40:50 (2262)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um gæslu þingskapa er sú að um nokkurt skeið hefur í fjölmiðlum verið fjallað það sem þar er sagt frv. að nýjum jarðalögum. Það hefur meira að segja gengið svo langt að aðstoðarmaður ráðherra kemur fram í fjölmiðlum til viðræðna um það sem þar er sagt frv. til jarðalaga. Samkvæmt minni skilgreiningu á því hvað er frv. verður mál ekki að frv. til laga fyrr en búið er að leggja það fram á Alþingi.
    Þetta mál er orðið mjög sérstaks eðlis og mjög bagalegt fyrir okkur stjórnarandstæðinga að þurfa að hlusta á umræður um mál sem ríkisstjórn ætlar að fara að leggja fram á Alþingi í fjölmiðlum kvöld eftir kvöld án þess að hafa fengið svo mikið sem aðstöðu til þess að sjá málið.
    Ef svo er að ríkisstjórnarflokkarnir eigi í einhverju basli með að ná um þetta samstöðu og koma því fram, þá ber þeim að halda málinu að sér á þann hátt að það sé ekki komið til opinberrar umfjöllunar löngu áður en þingmenn fá að sjá það. Ég tel reyndar að þeir embættismenn sem hafa fjallað um þetta opinberlega hljóti að gera það í óþökk Alþingis og í raun setji Alþingi niður við slík vinnubrögð framkvæmdarvaldsins.