Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:27:56 (2276)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega verður umframafkastageta þegar aðalfiskstofn okkar minnkar svo að við megum veiða mun minna en verið hefur áratugi þar á undan en uppbygging hefur miðast við það veiðiþol. Því er ekki mótmælt. Ég er að mótmæla þeim fullyrðingum að á undanförnum áratugum, t.d. tveimur síðustu áratugum, hafi verið mikil offjárfesting í sjávarútvegi og uppbygging um land allt á frystihúsum og fiskiskipum. Það tel ég verulega orðum aukið. Ég bendi mönnum á að skoða hagtölur síðustu ára um fjárfestingu. Fjárfesting t.d. á höfuðborgarsvæðinu í veitingahúsum, gistihúsum og því um líku og í verslunarhúsnæði hefur verið meiri en í sjávarútvegi. Þar liggur verulega stór hluti af okkar fjárfestingarvandamálum. Ég bendi á að fjárfesting í íbúðarhúsnæði er um 12--15 milljarðar kr. á hverju ári eða um þrisvar sinnum meira en menn eru að fjárfesta í sjávarútvegi.
    Við verðum að horfa á fjárfestinguna í heild og reyna að stýra henni eftir því sem tök eru á, en ég held að menn hafi fengið of mikið á heilann að fjárfesting í sjávarútvegi sé vandamálið.