Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:37:50 (2278)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir meginefni þeirrar tillögu sem hér er til umræðu. Ég tek undir það að brýnt er að gera könnun á högum atvinnulausra. Tillagan er mjög viðamikil að mínu mati. Hún felur í sér rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis. Slík könnun sem hér er lögð til að fram fari tel ég að sé sambærileg við könnun sem fram fór í Danmörku fyrir nokkrum árum. Það var mjög umfangsmikil könnun sem tók mörg ár að vinna og niðurstaðan varð margar skýrslur. Mér skilst að þær samsvari þremur bókaígildum.
    Ég tel ástæðu til að gerð verði könnun sem taki styttri tíma og taki kannski til færri þátta en hér er lagt til þó ég leggist á engan hátt gegn því að svo umfangsmikil könnun fari fram. Ég hef átt samtöl við Landssamtök atvinnulausra sem hafa leitað til mín og farið fram á að þeir fái aðstoð til að gerð verði könnun á þeim aðstæðum sem atvinnulausir búa við sem gefi óvefengjanlega niðurstöðu sem unnt sé að byggja frekari aðgerðir á, m.a. ákvarðanir um aðstoð. Ég hef skoðað þessa ósk Landssamtaka atvinnulausra í samráði við Félagsvísindastofnun og Hagstofuna með það í huga hvernig best verði að standa að slíkri könnun. Ég hef fallist á að aðstoða þá við að slík könnun geti farið fram.
    Hagstofan hefur staðið í eitt ár fyrir nokkuð umfangsmikilli könnun. Úrtakið er um 4.000 manns á aldrinum 16--75 ára sem gefa miklu meiri upplýsingar en hægt er að sjá úr þessum hefðbundnu skráningum sem gerðar eru hjá vinnumálaskrifstofunni. Út úr þessum könnunum sem Hagstofan hefur gert er hægt að greina atvinnuleysi eftir kyni, aldri, hjúskaparstétt, búsetu, menntun, fyrri störfum, lengd atvinnuleysis og fleiri þáttum. Þessar kannanir, sem gerðar hafa verið þrisvar, fjórða könnunin er á leiðinni, eru byggðar á spurningum í samræmi við vinnumarkaðskönnun hagstofu Evrópubandalagsins. Þessi könnun gefur mynd af atvinnuleysi þeirra sem ekki láta skrá sig atvinnulausa. Ég greindi frá því í fyrirspurnatíma fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan að niðurstöður þessara þriggja kannana sem gerðar hafa verið sýndu ekki mjög mikinn mun að því er varðar hina hefðbundnu atvinnuleysisskráningu og þessa úrtakskönnun. Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að dulið atvinnuleysi sé mikið hjá þeim sem ekki hafa atvinnuleysisbætur og láta ekki skrá sig. Niðurstöður þessara kannana sýna að í apríl 1991 var atvinnuleysi samkvæmt þessari úrtakskönnun 1,8% en 1,4% samkvæmt atvinnuleysisskráningunni. Í annarri könnun sem var gerð

í nóvember 1991 var atvinnuleysi 2,7% en var 1,6% samkvæmt atvinnuleysisskráningunni. Í þriðju könnuninni í apríl 1992 munaði nær engu á þessum tveimur aðferðum. Fjórða könnunin er nú að fara af stað. Niðurstaða úr henni er væntanleg innan hálfs mánaðar. Ég tel að tvennt þyrfti að koma til í framhaldi af henni. Það er að Félagsvísindastofnun gerði þá könnun sem Landssamtök atvinnulausra er að fara fram á. Eftir að við höfum skoðað þetta sameiginlega með Félagsvísindastofnun og Hagstofunni teljum við réttast að þessi könnun, sem yrði þá könnun á aðstæðum atvinnulausra, næði til allra sem eru á atvinnuleysisskrá. Hér er yrði um töluvert viðamikla könnun að ræða sem ég tel að svara mundi nokkrum af þeim spurningum sem lagt er til að leitað verði svara við, sérstaklega um áhrif atvinnuleysis á einstaklinga og fjölskyldur. Ég vænti þess að slík könnun þurfi ekki að taka langan tíma og er ég að láta athuga það.
    Einnig tel ég að Hagstofan ætti í framhaldi niðurstöðu sinnar könnunar að láta gera framhaldskönnun hjá þeim í úrtakinu sem ekki eru á atvinnuleysisskrá og hafa ekki atvinnuleysisbætur. Þetta vildi ég að fram kæmi í þessari umræðu. Um leið tek ég undir það sem hér hefur komið fram hjá nokkrum þeirra sem hafa talað að það er nauðsynlegt að skoða stöðu þeirra sem fá ekki atvinnuleysisbætur og tryggja þeim rétt. Ég tel að það þurfi að skoða það í alvöru að það eigi ekki að vera skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum að vera félagi í stéttarfélagi. Það er auðvitað ljóst að ekki er hægt við það að búa að fjöldi fólks fái ekki atvinnuleysisbætur þegar það býr við atvinnuleysi.