Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:47:53 (2289)

     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að gefnu tilefni um friðun Reykjanesskagans að fram kom ósk um það frá fyrrv. sýslunefnd Gullbringusýslu, ég held að það hafi verið hennar síðasta verk áður en hún var lögð niður, að komið yrði á friðun Reykjanesskagans. Að vísu hafa sveitarstjórnir þar heimild til að gera þetta en sýslunefndin taldi að það væri æskilegra að fá meiri stuðning frá Alþingi um það. Ég var því meðmæltur, þ.e. að það yrði ekki lausaganga á því svæði. Ég held að þannig sé landslagi og gróðri háttað að það geti verið mjög æskilegt að hafa þann hátt á þar. Ég held að mál í sambandi við þá girðingu, sem hv. þm. talaði um, sé svo langt komið að það muni verða framkvæmt áður en langt um líður. Ég vona það

a.m.k. Þetta undirstrikar að því er mér finnst það sem ég sagði að í þessari þáltill. er tekið fyrir stórt svæði þar sem aðstæður eru svo mismunandi að það gildir ekki alveg það sama á öllu svæðinu. Ég lýsti yfir stuðningi mínum við að þessi háttur yrði hafður á á Reykjanesskaga.