Endurgreiðslur lána vegna framkvæmda í vegagerð

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:35:54 (2296)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Eins og öllum er ljóst er gengið út frá því í fjárlagafrv. fyrir 1993 að teknir verði að láni 1,8 milljarðar á næsta ári og síðan minni upphæðir á tveimur næstu árum sem getið er um þar til vegagerðar. Það kemur einnig fram að ætlunin er að þessir fjármunir verði endurgreiddir af fjármunum sem ráðstafa á til vegagerðar síðar. Það liggur ekki fyrir endanlega hvenær um slíkar endurgreiðslur verður að ræða, en þó má gera ráð fyrir því að það verði í fyrsta lagi eftir að tekin hafa verið lán til þeirra hluta næstu þrjú árin. Mér þykir eðlilegt að þetta verði síðan endurgreitt á um það bil 10 næstu árum þar á eftir án þess að um það hafi verið gerð tillaga að svo stöddu. ( ÓÞÞ: Byrja eftir þrjú ár?) Það er óljóst hvenær byrjað verður en í fyrsta lagi eftir að þessi þrjú ár eru liðin, gæti verið síðar. Það sjá allir hvers vegna þetta er gert. Atvinnulíf er í lamasessi, mjög lítið. Við höfum tæki og tól til staðar í landinu. Það ríkir hér atvinnuleysi og þótti skynsamlegt að flýta framkvæmdum með þessum hætti.