Sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:40:28 (2300)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki staðfest sannleiksgildi fréttar í Morgunblaðinu. Þetta mál var á dagskrá í utanrmn. í gær. Þær upplýsingar sem ég hef undir höndum eru í stórum dráttum þessar:
    Flest þau útfærsluatriði, sem á dagskrá eru, eru vel á veg komin. Í erindaskiptunum sjálfum frá 2. nóv. eru upp talin þau efnisatriði sem þarf að ganga frá í þessum tvíhliða samningi. Það eru augljóslega atriði eins og þau tvö svæði sem um er að ræða sem hafa verið afmörkuð. Síðan er verið að fjalla um fjölda skipa sem heimilaður hefur verið þar sem nefndar hafa verið tölurnar að hámarki þrjú á hvoru svæði, fimm að hámarki á umræddum tíma sem er á seinni hluta árs. Síðan hafa verið til umræðu útfærslur á öðrum þáttum eins og eftirfarandi: Forræði Íslendinga að öllu leyti yfir þeirri fiskveiðistjórnun, kvöð hinna til þess að hlíta ákvæðum íslenskrar fiskveiðistjórnunar varðandi t.d. veiðarfæri að öllu leyti, reglur sem kynni að vera gripið til um friðun, veiðarfæri og o.s.frv. Eftirlitsþátturinn er ekki togstreituefni samkvæmt upplýsingum aðalsamningamanns. Það eru búið að ganga frá því að eftirlitsmenn skuli koma um borð, með hvaða hætti það skuli gert, þeir verði á kostnað viðkomandi útgerðar. Það er hins vegar svo með alla þætti málsins að það er ekkert frágengið fyrr en samningurinn í heild liggur fyrir. Það eru fyrst og fremst tvö atriði sem hafa orðið að ásteytingarsteini. Annars vegar það sjónarmið að um sé að ræða skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Hins vegar sú krafa að um sé að ræða skipti á veiddum afla upp úr sjó.
    Aðalsamningamaður hefur óskað eftir fundi í lok mánaðarsins þar sem stefnt er að því af hálfu beggja aðila að lúka samningnum. Takist það, þá mun verða unnt að leggja samninginn fyrir til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþingi Íslendinga, trúlega í byrjun desember.