Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 14:27:04 (2311)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að þetta frv. er býsna seint fram komið. Miðað við það mikla vinnuálag sem er í efh.- og viðskn. hlýtur mín fyrsta spurning til hæstv. viðskrh. að vera: Hversu brýn þörf er á því að þetta frv. verði afgreitt fyrir áramót? Ég sé það í frv. að gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi samhliða samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Það ákvæði er að finna í býsna mörgum þeirra frumvarpa sem lögð hafa verið fram á þessu hausti þó að málin séu í sjálfu sér óháð samningnum og hægt að líta á þau óháð honum. Mér er ekki alveg ljóst hvað það er í frv. sem er svo brýnt að gangi í gildi um næstu áramót, þ.e. ef samningurinn verður samþykktur. Þess vegna hlýt ég að spyrja hvort hæstv. viðskrh. sjái möguleika á því að gildistakan frestist eitthvað. Ég tel reyndar að hér sé að mörgu leyti um mjög gott mál að ræða að svo miklu leyti sem ég hef náð að kynna mér það, en mér er ljóst að þetta mikla mál þarfnast mikillar vinnu og mikillar skoðunar í nefndinni. Til þess að þau vinnubrögð verði vönduð hljótum við að þurfa meiri tíma en mér virðist vera til stefnu ef reiknað er með því að málið nái fram að ganga fyrir áramót.
    Þetta mikla frv. er í 103 greinum og með þrjú ákvæði til bráðabirgða. Það má því ljóst vera að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með að hér skuli vera sett í einn lagabálk allt sem snertir bankastofnanir og sparisjóði, hvort sem þeir eru ríkisbankar, hlutafélagsbankar eða sparisjóðir í eigu almennings. Ég tel mjög eðlilegt að sömu reglur gildi um þessar stofnanir.
    Hæstv. viðskrh. nefndi nokkrar nýjungar í frv. en þó ekki allar. Það er ein sem ég tel sérstaklega ástæðu til að lýsa yfir ánægju með. Það er varðandi ráðningu bankastjóra. Bæði í 29. gr. og 38. gr. er vikið að ráðningu bankastjóra. Í 29. gr. segir að bankastjórar skulu eigi ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn og auglýsa skuli opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra með hæfilegum fyrirvara.
    Ég fagna þessu alveg sérstaklega vegna þess að hér tel ég að verið sé að færa bankastarfsemi til nútímahorfs. Vonandi lýkur þeim ljóta kafla í íslenskri sögu sem tengist ráðningum þar sem flokkshagsmunir ráða meiru en almannahagur og það að stofnunum sé stjórnað með faglegum hætti.
    Í 38. gr., þar sem er að finna sameiginleg ákvæði varðandi stjórnun bankastofnana og sparisjóða, segir í 2. mgr., með leyfi forseta:
    ,,Auk þess að fullnægja skilyrðum 1. mgr. skal menntun eða starfsreynsla og starfsferill bankastjóra og sparisjóðsstjóra vera með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt.``
    Þetta er nýjung í lögum og mér finnst það mjög til fyrirmyndar bæði að gera kröfur til menntunar og starfsreynslu þannig að ljóst sé að hún nýtist í því starfi sem mönnum er ætlað að gegna en því miður hefur allt of oft verið brotalöm þar á í íslensku stjórnkerfi.
    Það eru örfáar spurningar til hæstv. viðskrh. Hann gat þess og ég tel það bæði eðlilegt og gott að nú fái íslenskar bankastofnanir aukið rými til þess að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum. Hann vísaði þar til reynslu Þjóðverja sem ég tel vera mjög eftirbreytniverða þar sem þeir hafa iðulega gripið til þess að aðstoða sín fyrirtæki og bjarga þeim m.a. til þess að reyna að koma í veg fyrir að eign í fyrirtækjum flytti úr landi. Er skemmst að minnast þegar Þýskalandsbanki keypti hlutafé í Mercedes Benz til að koma í veg fyrir að Arabar eignuðust stóran hlut í því mikla fyrirtæki. Ég vildi gjarnan heyra nánar frá ráðherranum hvernig hann sér þetta fyrir sér. Ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel í frv. hvernig þessu er háttað.
    Í upphafi frv. er talað um hlutafélagsbanka og ríkisbanka en sú spurning vaknaði hjá mér: Hvað um hreina einkabanka? Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um erlenda banka. Þeir eru eflaust ekki margir en ég veit ekki annað en einkabankar séu til, m.a. í Bandaríkjunum. Auðvitað vaknar sú spurning hvort ekki þurfi að nefna þá í lögunum. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. iðnrh. varðandi það mál.
    Samkvæmt frv. fær að bankaeftirlitið aukin völd. Það kemur heim og saman við það sem er að finna í öðrum frumvörpum um fjármálastofnanir að gert er ráð fyrir vaxandi hlutverki bankaeftirlitsins. Ég hlýt að spyrja hvernig bankaeftirlitið er undir það búið. Hvernig verður staða þess styrkt?
    Hæstv. viðskrh. nefndi líka atriði sem varðar eignarhald á bönkum og sparisjóðum sem mikið hefði verið rætt í nefndinni og þyrfti að breyta í framtíðinni og sagði að það væri viðkvæmt mál. Mig langar til að biðja hann að skýra nánar hvað þar er á ferð.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í mínu máli hefur mér ekki gefist nægilegt tækifæri til þess að kynna mér þetta mál en ég á sæti í efh.- og viðskn. og þar munum við fara vandlega ofan í málið en ég ítreka þær áhyggjur mínar hversu skamman tíma við höfum til stefnu ef ekki verður veittur aukinn frestur til að afgreiða þetta viðamikla mál.