Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 14:35:15 (2312)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mjög þýðingarmikið frv. og ég hlýt að leyfa mér að taka undir með þeim hv. ræðumönnum sem þegar hafa talað að það er seint í rassinn gripið að fá þetta mikilvæga frv. fram nú þegar komið er fram yfir miðjan nóvember. Að vísu er það orðið mjög teygjanlegt hugtak í seinni tíð hvað telst miður nóvember en það er nú samt í mínum málskilningi þannig að það er komið fram yfir hann. Ofan á allar aðrar annir bætist það að fara yfir þessa löggjöf og afgreiða hana fyrir jól því að gildistökuákvæðin eru hengd á Evrópska efnahagssvæðissamninginn eins og nú er í tísku.
    Þetta væri kannski sök sér ef hér væru eingöngu á ferðinni breytingar sem leiddu beint af þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu og að öðru leyti væri öllum breytingum á íslenskri bankalöggjöf skotið á frest en svo er ekki. Nú er ég ekki þar með að segja að það sé verri eða lakari hluti þessa frv. sá sem ekki tengist Evrópska efnahagssvæðinu beint. Þvert á móti tel ég líklegt að þar sé margt brúklegt að finna. Hitt er augljóst mál að þeim mun víðtækari sem löggjöfin er og þeim mun meiri breytingar sem hún felur í sér burt séð frá áhrifum af Evrópska efnahagssvæðinu eða tilkomu þess ef af verður, sem rétt er að hafa innan gæsalappa og sem spurningu enn sem komið er, þá er ósköp einfaldlega meiri vinna fólgin í því að fara yfir málið.
    Hér er t.d. verið að gera þá kerfisbreytingu að sameina í eina löggjöf öll ákvæði um banka og sparisjóði og alla starfsemi sem þeim tengist, svo sem starfsemi veðdeilda, lánastofnana, tryggingarsjóða og annað því um líkt sem mælt hefur verið fyrir um í ýmsum sérlögum fram að þessu. Þetta sjá menn þar sem talin eru upp í gildistökugreininni öll þau lagaákvæði sem falla úr gildi með tilkomu þessa frv. Þau eru 10 talsins. Nú eru þau auðvitað ekki öll mikilvæg í sjálfu sér, t.d. heimildir fyrir veðdeild Landsbankans til að gefa út bankavaxtabréf o.s.frv., en þó eru hér á ferðinni lög um veðdeildir ríkisbankanna og fleira af því tagi auk þess sem gera á verulegar breytingar á skipulagi tryggingarsjóðanna og Lánastofnunar sparisjóðanna.
    Ég er að nefna þetta hér, hæstv. forseti, vegna þess að ég vil fyrir mitt leyti a.m.k. hafa á því allan fyrirvara að það sé boðlegt við þessar aðstæður að ljúka öllum þessum breytingum fyrir áramót. Ég sé ekki annað en það horfi í það hjá hv. efh.- og viðskn. að hún verði að fara að flokka eitthvað verkefni sín í það sem er óhjákvæmilegt að afgreiða fyrir áramót og hitt sem unnt er að hafa tíma til að skoða betur. Það er ekki nokkur hemja að vera með mikilvæga löggjöf af þessu tagi í höndunum og hafa ekki tíma til þess að fara sómasamlega yfir hana. Nefndin hefur lagt mikla vinnu t.d. í lagafrumvörp eins og samkeppnislög sem er rétt og skylt, en til samanburðar við það verkefni sem hér þyrfti að vinna ef fara á vel yfir þetta er ég hræddur um að tíminn sé að verða naumur.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að fljótt á litið held ég að það sé margt sem mæli með því að sameina þessi lagaákvæði á einn stað og á margan hátt eðlilegast að stofnanir sem eru með starfsemi á þessu sviði falli allar undir ein og sömu lagaákvæðin að svo miklu leyti sem við verður komið. Til að mynda séu almenn ákvæði í bankalögum sambærileg fyrir bæði ríkisbanka, hlutafélagabanka og sparisjóði. Auðvitað þarf að huga að því að þessar stofnanir hafa orðið til nokkuð hver með sínum hætti og það er ekki langt síðan að um þær giltu allar saman sérlög. Fram til 1985, ef ég man rétt, giltu sérstök lög fyrir hvern banka fyrir sig. Þau voru þá sameinuðð í tvo meginlagabálka, þ.e. viðskiptabankalög og lög um sparisjóði. Hér er svo verið að slengja þessu öllu saman og má segja að hringurinn sé þá að lokast og að mörgu leyti eðlileg þróun. Á hinn bóginn skiptir miklu máli að þannig sé frá því gengið að til að mynda sérstöðu og eðli sparisjóðanna sé til haga haldið og fullur sómi sýndur í lagasetningunni.
    Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. vegna þess að hann nefndi takmarkandi ákvæði í lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnulífinu, þar sem m.a. er að finna þak gagnvart heimilli hlutafjáreign erlendra aðila í íslenskum bönkum. Eins og menn muna hefur 25% verið í lögum. Hæstv. viðskrh. sagði að ekki væri ástæða til að taka á því í þessum lögum þar sem takmarkanir laganna um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri mundu halda sér og ég skil það svo að það gildi á meðan á aðlögunartímann stendur, þ.e. fram til 1996. Er það þá svo að við þau tímamörk falli niður allar takmarkanir og er þá samningurinn eða ákvæði hans þannig að frá og með 1996 yrði Íslendingum óheimilt að vera með nokkrar takmarkanir af því tagi gagnvart eignarhlut útlendinga í íslenskum bönkum? Væri þá t.d. fræðilega möguleg sú útkoma ef ríkisstjórninni væri búið að takast að breyta bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélagabanka og þeir komnir að einhverju leyti á almennan markað að meirihlutaeign þessara banka færðist út fyrir landsteinana og væri okkur óheimilt að reisa skorður gegn því á grundvelli ákvæða samningsins um Evrópskt efnahagssvæði eftir að aðlögunartíminn væri útrunninn?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvort merkja megi einhverja stefnubreytingu hjá hæstv. ríkisstjórn í þessari uppsetningu frv. í ríkisviðskiptabanka annars vegar og hlutafélagabanka hins vegar. Boðar þetta fráhvarf frá þeirri stefnu, sem ég hélt að væri ríkisstjórnarinnar, að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög þó svo annar þeirra yrði t.d. áfram alfarið eigu ríkisins? Ef ríkisstjórninni væri alvara með þessa stefnu hefði maður e.t.v. átt von á öðru en að lagafrv. væri uppsett með þeim hætti að gert sé ráð fyrir tilvist ríkisviðskiptabanka án nokkurra takmarkana. (Gripið fram í.) Það er svo aftur annað mál og kemur að því, hv. frammíkallandi, hvort ég sé nokkuð að sýta það þó ríkisstjórnin hafi vitkast og áttað sig á því að eitt það allra heimskulegasta af mörgum vitleysum sem henni hefur dottið í hug er vera að hrófla við eignarhaldi á ríkisbönkunum einmitt við þessar aðstæður.
    Ég veit ekki betur en ríkisstjórnin hafi bæði í Hvítbókinni sinni frægu, handbók ráðherranna sem aldrei var samþykkt í þingflokkum stjórnarliðsins eins og frægt er og ég hef þess vegna kallað því nafni, sem og stjórnarsáttmálanum þunna, sem kom frá Viðey, boðað það að hún ætli að breyta bönkunum í hlutafélög og selja þá ef mögulegt er. Sömuleiðis man ég ekki annað en hér sé í fjárlagafrv. gert ráð fyrir ekki minna en 1.500 millj. vegna sölu eigna ríkisins á næsta ári og inni í þeirri mynd hefur Búnaðarbankinn verið nefndur. Þá þarf ekki aðeins að breyta honum í hlutafélag væntanlega til þess að hægt sé að selja hlutabréfin heldur einnig að setja hann á markað og selja. Ég hlýt að leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh.: Hefur orðið stefnubreyting hjá hæstv ríkisstjórn og er hún e.t.v. fallin frá því að hrófla við ríkisviðskiptabönkunum vegna aðstæðna í okkar fjármálum og vegna almennrar skynsemi sem skyndilega hafi komið yfir hæstv ríkisstjórn?
    Ég hélt að ekki þyrfti að taka það fram en það er kannski skylt að gera það að ræðumaður er þeirrar skoðunar að það sé hin mesta fásinna að fara að hrófla við ríkisbönkunum við þessar aðstæður. Í fyrsta lagi vegna þess að það eru engir þeir fjármunir til á lausu á Íslandi að mínu mati sem skynsamlegt væri að ráðstafa í það að kaupa út eignarhlut ríkisins í þessum bönkum. Það væri della. Ef þeir peningar eru einhvers staðar fyrir hendi og á lausu höfum við nóga þörf fyrir þá í aðra og brýnni hluti en að kaupa út eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum eða Landsbankanum. Þeir fjármunir eiga að fara í nýtt hlutafé í nýjum fyrirtækjum sem skapa ný störf en ekki í það að kaupa Búnaðarbankann.
    Aðstæður á markaði eru hvort sem er þannig að ríkið gæti aldrei fengið sannvirði fyrir bankann, a.m.k. ekki frá íslenskum aðilum við þær aðstæður sem nú eru, fullyrði ég. Ef meta ætti með raunverulegum hætti eign og viðskiptavild bankanna þá væru það fjármunir sem ég fullyrði að liggi ekki á lausu í íslenska peningakerfinu.
    Í þriðja lagi held ég að það væri forheimska að hrófla við ríkisviðskiptabönkunum vegna stöðu Íslands á lánamörkuðum erlendis. Það er enginn vafi á því að hin beina ábyrgð ríkisins sem er á bak við ríkisbankana, sem ekki eru hlutafélög heldur hrein ríkisfyrirtæki, styrkir stöðu þeirra á erlendum lánamarkaði. Það gæti valdið óróa þó að ekkert annað kæmi til en það eitt að eignarforminu yrði breytt yfir í hlutafélag því að þar með takmarkast í fyrstu umferð ábyrgð bankans við hlutaféð. Það er ekki fyrr en að því að gengnu sem kæmi að eigendaábyrgðinni þó svo það væri ríkið. Þetta þekkja menn og vita og t.d. þeir sem eru í mjög nánum tengslum við hinn alþjóðlega lánamarkað, svo sem framkvæmdastjórar stærstu fjárfestingarlánasjóða landsmanna, fullyrða að þessir hlutir hafi áhrif. Ég tel að menn eigi ekki að hegða sér með þeim beturvitrungshætti, ef svo má þýða það þýska hugtak að menn hyggist vita alla hluti betur en aðrir menn. Ég held að þeir sem starfa á þessum markaði og vinna við það að taka lán fyrir fjárfestingarlánasjóði eða banka erlendis séu best færir um að dæma um það hvernig lánstrausti okkar verði þar best fyrir komið. Ég leyfi mér að fullyrða að það væri skaðleg breyting ein og sér að fara úr ríkisbankafyrirkomulaginu yfir í hlutafélagaform þó svo að ríkið ætti öll hlutabréfin eða mestan hluta þeirra fyrst um sinn.
    Ég vona að hæstv. viðskrh. láti svo lítið að tjá sig eitthvað um þessa þætti málsins hér. Það er mjög ankannalegt að vera að ræða þetta hafandi opið fjárlagafrv. í höndunum sem gerir ráð fyrir sölu á öðrum ríkisviðskiptabankanum svo best verður vitað.
    Mig langar í fjórða lagi að spyrja hæstv. viðskrh. hvort með lagaákvæðunum sem lúta að sparisjóðunum verði breyting á högum einstakra sparisjóða frá því sem er með gildandi löggjöf. Ég tek eftir því t.d. að í 36. gr. er mælt fyrir um að í stjórn sparisjóðs skuli sitja fimm menn. Ef ég man rétt eru a.m.k. í stjórnum sumra sparisjóðanna í dag eingöngu þrír menn. Þar er byggt á ákveðnu hlutfalli milli héraðsnefnda eða sýslunefnda sem áður voru annars vegar og stofnenda sparisjóðsins hins vegar. Ef þarna er að verða breyting á sem út af fyrir sig getur verið í góðu lagi með vil ég samt spyrja hæstv. viðskrh. hvers vegna. Þótti einhver sérstök ástæða til þess að setja bein fyrirmæli í lög um það hvernig stjórn sparisjóðanna skyldi háttað? Veldur þessi lagagrein breytingu á högum einhverra sparisjóðanna og þá hvers vegna?
    Í 55. gr. er komið að afar viðkvæmu atriði þar sem er eiginfjárhlutfall lánastofnana. Mér er auðvitað ljóst að ekki er að öllu leyti æskilegt að vera að ræða það fyrir opnum tjöldum á Alþingi t.d. ef staðan er þannig að í einhverjum tilvikum leiki vafi á því að stofnanirnar uppfylli þær reglur sem kveðið er á um og ganga í gildi nú um áramótin. Það er ekki víst að allir hafi áttað sig á því að það er fyrst um næstkomandi áramót sem nýstaðfestar reglur, BIS-reglur sem svo eru kallaðar, taka gildi hér á Íslandi. Þær byggja á samræmdum erlendum reglum um skilgreiningu á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og skal það vera að lágmarki 8% af svonefndum áhættugrunni. Maður hlýtur engu að síður að leyfa sér að spyrja hæstv. viðskrh. um það hvernig hann meti stöðuna gagnvart gildistöku þessara ákvæða fyrir íslensku lánastofnanirnar um áramótin. Liggur ljóst fyrir að þær muni allar uppfylla þessi takmörk? Eða sér hæstv. viðskrh. að í sjáanlegri framtíð gæti þurft að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að allar helstu lánastofnanir landsmanna standist þessar kröfur? Ég held að það hljóti að mega tala hér það tæpitungulaust að menn viti að í þessu sambandi hafa menn aðallega áhyggjur af stærsta banka landsmanna. Hann hefur samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið og eru opinberar ekki nema rétt náð þessum mörkum samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið á undanförnum missirum. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé því öllum eru ljósar þær miklu afskriftir sem bankarnir hafa þurft að framkvæma á undanförnum mánuðum eða árum og mikil áhætta sem þeir eru að taka vegna viðskipta sinna m.a. við skuldsettar atvinnugreinar þar sem gjaldþrot eru tíð. Ég tala ekki um ef efnahagsstefnan blífur, sú efnahagsstefna galdþrotanna sem hæstv. ríkisstjórn hefur orðið heimsfræg fyrir, að það verði áframhaldandi úrræði og lausnarorð að gera fyrirtæki í landinu gjaldþrota í hagræðingarskyni eins og sagt er. Þá hljóta menn a.m.k. að viðurkenna þann þátt málsins að því fylgja óhjákvæmilega geysilegar afskriftir hjá helstu lánardrottnum fyrirtækjanna. Þá er öruggt mál að ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af þessum þætti.
    Mig langar aðeins að víkja að starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða eins og hún er skilgreind í 44. gr. og áfram, þ.e. í V. kaflanum. Þar er, eins og hæstv. ráðherra m.a. nefndi, að nokkru leyti um nýmæli að ræða og útvíkkun á heimildum bankanna til starfsemi. T.d. sé ég að í næstsíðustu málsgrein er komið inn á að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé heimilt að stunda vátryggingastarfsemi með stofnun dótturfyrirtækis. Fleira af því tagi vekur vissulega þær spurningar hvort það sé allt saman sjálfsagt. Nú er ég ekki að taka afstöðu til þess fyrir fram en fljótt á litið er kannski ýmislegt annað sem við höfum meiri þörf fyrir í augnablikinu en það að bæta við okkur á ýmsum slíkum sviðum, fjölga stofnunum o.s.frv. E.t.v. er hægt að færa fyrir því skynsamleg rök að nauðsynlegt sé og eðlilegt að bankarnir megi spreyta sig í slíkum rekstri.
    Í 45. gr. eru ákvæði sem kveða á um yfirtökuheimildir banka og sparisjóða á eignum til að gæta hagsmuna sinna, eins og menn þekkja af frægum dæmum á síðustu dögum, til að tryggja fullnustu krafna sinna eða gera sér verðmæti úr veðum sem bankarnir eiga í fasteignum eða einhverjum eignum. Þetta ákvæði er galopið ef svo má að orði komast. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh.: Er það virkilega svo í bankalöggjöf nálægra ríkja að þetta sé fullkomlega opin heimild án nokkurra hugsanlegra takmarkana af hálfu yfirvalda? Hér stendur sem sagt í fyrri mgr. 45. gr.: ,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu``. Síðan segir að vísu: ,,Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt að mati bankastjórnar eða sparisjóðsstjóra.``
    Þetta þýðir sýnist mér að viðskiptabankar og sparisjóðir hafa algjörlega ótakmarkaðar heimildir til yfirtöku eigna af hvaða tagi sem er. Það er beinlínis tekið fram að það sé bannað að takmarka það og það er á valdi þeirra sjálfra að meta hvenær þeir skuli selja eða afsetja viðkomandi eignir. Þeir geta með öðrum orðum rekið þær eins lengi og þeir fullyrða að sé í þágu hagsmuna bankans. Ég hefði að mörgu leyti talið að það væri eðlilegra að hafa þarna einhver takmörk á. Að hinu leytinu væri eðlilegt að hafa svigrúm fyrir bankana til einhverrar þátttöku í atvinnurekstri óháð ákvæðum um yfirtöku eigna. T.d. mætti ákveðinn hluti eiginfjár banka vera bundinn í fjárfestingum eða atvinnurekstri með svipuðum hætti og tíðkast í Þýskalandi og svo væru aftur sérstök ákvæði sem vörðuðu það þegar bankinn þarf að yfirstíga þessi mörk og leysa til sín miklar eignir, standa jafnvel í umfangsmiklum atvinnurekstri um skeið til að tryggja hagsmuni sína. Þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki skynsamlegt að það ákvæði sé þannig úr garði gert að engar takmarkanir sé hægt að setja á það.
    Gæti t.d. Landsbankinn yfirtekið Reykjavíkurborg sem skuldar mikið í Landsbankanum og rekið hana um skeið á grundvelli þessa ákvæðis? Það er von að spurt sé. Væri þá skynsamlegt að þetta væri bara galopin heimild og það væri bara í valdi Sverris Hermannssonar að skilgreina það hversu lengi það væri í þágu hagsmuna bankans að eiga fyrirtækið? ( Gripið fram í: En ríkissjóð?) Það kæmi sennilega seinna

til þess að Landsbankinn yfirtæki ríkissjóð. En því miður, hv. frammíkallandi, hættan er frekar á hinn veginn, að ríkissjóður þurfi að gera Landsbankanum gott á næstu missirum. Við skulum ekki fara frekar út í að ræða það viðkvæma mál.
    Svo öllu gamni sé sleppt vil ég gjarnan að hæstv. viðskrh. tjái sig aðeins um þetta. Eru fyrir því einhver sérstök rök að þetta ákvæði skuli vera svona algjörlega ótakmarkað? Væri ekki sú leið sem ég er að nefna athugunar virði, þ.e. að þetta væru tvískipt ákvæði. Annars vegar ákvæði um almenna þátttöku bankanna sem væri sett undir ákveðin takmörk, gæti eftir atvikum greitt fyrir nýsköpun í atvinnulífi og að einhverju leyti þátttöku fjármálastofnana í uppbyggingu og fjárfestingum eins og ég nefndi dæmi um, t.d. frá Þýskalandi. Að hinu leytinu væru sérstök ákvæði um yfirtöku. Þá kæmi til greina að hafa einhver takmarkandi ákvæði, t.d. að hægt væri að beina tilmælum um eða fyrirskipa að bankarnir hefðu tiltekinn frest til að afsetja eignir niður fyrir viss mörk. Mér finnst þetta dálítið sérkennilegt satt best að segja þótt ég sé ekki endilega að gera því skóna að á þetta reyni í stórum stíl. Við höfum þó nýlegt dæmi um yfirtöku á engu smáfyrirtæki, á stærstum hluta eigna stærsta fyrirtækis landsins, þ.e. yfirtaka Landsbankans á eignum Sambandsins. Á slíka hluti, því miður, gæti oft átt eftir að reyna á næstu árum.
    Í XI. kafla er svo fjallað um erlenda banka og þar er orðalag sem ég vil biðja hæstv. viðskrh. að skýra lítillega fyrir mér. Það er sökum þess, eins og fleiri ræðumenn hafa minnt á, að maður hefur ekki haft mikinn tíma til að skoða frv. Þar er talað um starfsemi erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi og að þeir hafi hér rétt til að stofnsetja hér útibú eins og reyndar er í lögum ef ég man rétt. Það er orðalag í fyrstu línu 84. gr. sem ég vil spyrja um. Þar stendur: ,,Erlendir bankar og sparisjóðir sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins . . .  `` Er þá verið að takmarka þetta við banka sem hafa þennan staðfesturétt og geta það verið utanaðkomandi bankar, t.d. bankar frá Asíulöndum, sem eru með starfsemi með einhverjum þeim hætti inni á Evrópska efnahagssvæðinu? Telst það staðfesta og hafa þeir þá aftur rétt til að stofna útibú hér? Ég man ekki betur en að ákvæðið í gildandi lögum sé ekki bundið við Evrópu frekar en aðrar heimsálfur. Þess vegna er spurning mín sú: Er þarna verið að þrengja með vissum hætti hópinn? Gætu þá bankar, t.d. frá Asíu, sem ekki hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu ekki komið hér inn með útibú? Hver er þá hugsunin á bak við það? Ég sé ekki betur en að heimildin, eins og hún er hér sett upp í 84. gr., sé bundin við það að erlendir bankar hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu. ( Viðskrh.: Má ég benda á 86. gr.) Þá kemur að því, hæstv. viðskrh., að við höfum ekki haft mikinn tíma til að skoða þetta. Þar sé ég að hæstv. ráðherra ætlar að ná sér í eina þægilega reglugerðarheimild til að leyfa vel völdum bönkum frá öðrum svæðum að koma inn ef honum sýnist svo. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Um heimildir erlendra viðskiptabanka og sparisjóða, annarra en um ræðir í 1. málsgr. 84. gr., til starfsemi hér á landi fer eftir reglum sem viðskrh. setur að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.``
    Það er þá greinilega þannig að það verður í valdi hæstv. viðskrh. að velja þá banka utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fá að starfa hér. Þeir þurfa þá auðvitað að koma sér vel við þann ráðherra til að verða í náðinni.
    Ekki finnst mér þetta sérlega gáfulegt. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að binda heimild erlendra banka til að hafa hér útibú, ef hún er fyrir hendi á annað borð, eða hnýta hana með þessum hætti við Evrópska efnahagssvæðið. Er þarna e.t.v. á ferðinni sami þrengslahugsunarhátturinn og gefur að líta í frv. hæstv. ríkisstjórnar um bifreiðagjöld, tolla og vörugjöld, sem þau eiga víst að heita, þar sem verið er að taka þátt í að byggja upp tollmúra Evrópu með því að hafa mismun á, t.d. um bílavarahluti, eftir því hvort þeir koma frá Evrópu eða öðrum heimsálfum? Það er þá gott að hæstv. viðskrh. fari yfir þetta.
    Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra um Lánastofnun sparisjóðanna. Samkvæmt 101. gr. svo og ákvæði til bráðabirgða III á að leggja Lánastofnun sparisjóðanna niður í núverandi mynd og breyta henni í raun og veru í banka. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvers vegna þetta er gert. Er þetta samkvæmt ósk Sambands sparisjóða? Er það vilji þeirra sem standa fyrir rekstri þessara stofnana, sem er ákaflega mikilvægur þáttur í uppbyggingu sparisjóðanetsins í landinu, að hún breytist með þessum hætti eða eru það sérstaklega einhver bankaleg sjónarmið sem valda því? Eða er þetta e.t.v. afleiðing einhverra tilskipana Evrópubandalagsins að þessu þarf að breyta?
    Það má vel vera að það sé ekkert sem mæli sérstaklega gegn því að lánastofnunin taki þessum eðlisbreytingum en ég vek þó athygli á því að hlutverk hennar var ekki að verða einhvers konar samkeppnisaðili á þessum markaði heldur eingöngu þjónustuaðili við starfandi sparisjóði. Ef þetta þýddi að hún tæki einhverjum breytingum í þá veru mundi ég fyrir mitt leyti hafa efasemdir um að það væri rétt spor. Ég held að rekstur hennar, eins og hann hefur verið uppbyggður, hafi þjónað markmiðunum afar vel. Það er enginn vafi á því í mínum huga að uppbygging sparisjóðanna á síðustu árum með tilkomu sameiginlegs rekstrar og Sambands sparisjóða og Lánastofnunar sparisjóðanna hefur verið mjög farsælt skref. Ég held að að mörgu leyti sé í sparisjóðafyrirkomulaginu gott fordæmi fólgið um hlut sem mikið er nú talað um en allt of lítið gert af. Það er að dreifa valdi og ábyrgð, færa verkefnin heim í héruð. Það lygilega er nefnilega að í sparisjóðunum eiga menn sjálfstæðar stofnanir heima í héraði með fullt ákvarðanatökuvald og full fjárráð sem er hlutur sem mikið er talað um á ýmsum öðrum sviðum en lítið verður úr. Ég hef stundum undrast hversu lítið hefur farið fyrir því að í sparisjóðunum eiga menn sýnishorn af valddreifingu og ákvarðanatökudreifingu af þessu tagi. Ég er þess vegna svolítið viðkvæmur fyrir því ef verið er að gera einhverjar breytingar sem hafa áhrif á það skipulag.

    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að hafa orð mín fleiri. Ég hef lagt fram nokkrar spurningar fyrir hæstv. viðskrh. sem ég vona að hann greiði úr. Það mætti auðvitað margt fleira um frv. segja svo ekki væri talað um að fara hér út í pínulitla umræðu um vaxtamál og handafl eða annars konar afl í þeim efnum og stöðu mála almennt séð í bankakerfinu, t.d. þann óhóflega vaxtamun sem hér er haldið uppi í bankastofnununum. Hann er hluti af þeirri uppdráttarsýki efnahagslífsins sem við búum við, að rekstur þessara fjármálastofnana er óheyrilega dýr og leggur allt of miklar byrðar á viðskiptavini þeirra, skuldug fyrirtæki og einstaklinga. Við leysum það víst ekki á einni eftirmiðdagsstund þótt við ræddum það kannski okkur til bóta. Ég ætla a.m.k. í fyrstu umferð að fá að heyra svör hæstv. viðskrh. og svo sjáum við til.