Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 15:53:35 (2317)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég ætla að nefna fjögur af þeim atriðum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að í máli sínu í síðara sinn. Í fyrsta lagi vil ég fullvissa hann um það að í íslenska bankakerfinu og íslenska bankaeftirlitinu hafa menn reynt að draga lærdóm af þeirri þróun sem orðið hefur að undanförnu í bankamálum í grannlöndum okkar. Þeir lærdómar sem helst eru af því dregnir eru að betra eftirlit þurfi að hafa og meiri árvekni í rekstri hverrar einstakrar lánastofnunar. Það er meðal þess sem hlutafélagsbreytingin mun færa með sér, strangara aðhald sem stafar af þeim takmörkunum sem takmörkuð ábyrgð og krafa um arð af hlutafénu hefur í för með sér. Þetta þýðir ekki þar með að breytingin í hlutafélag á líðandi stund muni færa okkur betri niðurstöðu þegar í stað. Hún er a.m.k. viðleitni til þess að varnaðarljósin kvikni þegar eitthvað er að. (Gripið fram í.) Því miður, virðulegi þingmaður, eru þess dæmi en vandamálin koma þó a.m.k. fram fyrr því að ríkisbanki af því tagi sem við höfum getur eðli sínu samkvæmt ekki farið á höfuðið. Það er veila að menn sjái ekki jafnfljótt og viðskiptaleg aðhaldsmerki eru farin að koma í ljós að þarna sé eitthvað að.
    Það er nefnilega þannig að ábyrgð ríkisins á lánakerfinu er ákaflega mikilvæg en ríkið á ekki sjálft þar með að taka ábyrgð á lánastofnununum hverri fyrir sig. Það er þessi greinarmunur sem gera þarf til að átta sig á því hvað hér er verið að fara. Þess vegna er það ekki nein kerskni eða hótfyndni að benda á að ekkert af þeim ríkjum sem lent hafa í þessum erfiðleikum vegna sinna lánakerfa hefur brugðið á það ráð að hætta að reka banka, sem þau hafa tök á, sem hlutafélagsbanka. Þau halda því áfram einfaldlega af því að það er hið sjálfsagða rekstrarform fyrir þessa starfsemi til þess að jafnræðis sé gætt gagnvart skattalögum, gagnvart starfsreglum og öllu starfsöryggi. Það er ekki uppskrift að öryggi í bankarekstrinum. Það þarf jafnframt að gæta þess að lánakerfinu í heild sé sinnt og auðvitað er það rétt að hætta á tapi í mikilvægum lánastofnunum getur jafngilt kerfishættu. Því getum við ekki breytt en við getum reynt að haga skipulagi bankanna þannig að dregið sé úr þessum hættum. Það er einmitt tilgangur þeirrar breytingar sem ég geri tillögu um og mun gera tillögur um síðar. Það er líka rétt að það þarf að fara þarna fram með fyllstu gát til þess einmitt að varðveita lánstraust landsins út á við. Það gerum við ekki með andvaraleysi og opnum reikningum hjá ríkissjóði. Þeir sem meta okkar lánstraust eru miklu skynugri en svo að þeir skoði ekki grundvöllinn sjálfan en horfi bara á formið.
    Í öðru lagi um það hvað verða muni eftir 1996. Ég hygg að hv. 4. þm. frá Norðurl. e. hafi ekki hlýtt alveg á það sem ég sagði í mínum svörum. Ég sagði: Eftir ársbyrjun 1996 verður þessi takmörkun ekki eftir þjóðerni. Það er ekki þar með sagt að við kynnum ekki að ákveða að eignarhlutur eins aðila í banka verði takmarkaður. Hann er það reyndar samkvæmt gildandi lögum. Það má vel vera að hugað yrði að þeim reglum á þeim tíma sem líður fram að árslokum 1995. Það er eins og kom fram hjá þingmanninum í hendi þingsins að meta það hvernig það vill halda á slíkum málum. Það er hins vegar ekki skuldbinding um annað af okkar hálfu en að slíkar takmarkanir verði ekki mismunandi milli aðilanna að hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Að lokum nokkur orð um Íslandsbanka og breytingarnar sem þar urðu. Það má vel vera að aðrar leiðir kunni að hafa virst færar fræðilega til þess að hagræða og bæta skipulag íslenska bankakerfisins. Ég ætla bara að benda á þá einföldu sögulegu staðreynd að menn höfðu reynt þær leiðir, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hreyfði hér áðan, að færa banka saman, draga úr tvíverknaði í þessu kerfi, fjölverknaði reyndar, til þess að fækka þeim, án árangurs í aldarfjórðung. Það hafði ekki tekist. Það tókst með þessum hætti og auðvitað má segja eftir á að það hefði verið hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Það stendur eftir að það var ekki gert fyrr en til þessa ráðs var gripið.
    Að lokum um tímann og hvort unnt sé að skilja með einföldum hætti að þau ákvæði sem beinlínis tengjast gagnkvæmnisrétti samkvæmt EES-samningunum og annað sem lýtur að samræmingu á okkar bankalögum og reglum að því sem gildir á því svæði. Eins og nefndin, sem samið hefur frv., bendir á þá valdi hún þá leið sem kannski má segja að sé erfiða leiðin en um leið að mínu áliti betri leiðin, að fara róttækt í málið, steypa saman í ein lög lagaákvæðum sem eiga saman um þessar lánastofnanir. En einmitt af því að hún valdi þessa leið er erfiðara að skilja þetta að. Það er vafalaust mögulegt en ég held að til hægari verka væri betra að nota ferðina og klára málið.