Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:10:34 (2325)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna spurninga hv. 8. þm. Reykn. vil ég í fyrsta lagi segja það að ég tel að þegar við ræðum frv. til laga um breytingu á ríkisviðskiptabönkum í hlutafélagsbanka sé bæði rétt og æskilegt að ræða hvernig rekstur með mismunandi formi hefur reynst. Ég vil ekki á þessari stundu lofa tilteknum skýrslum um málið en ég treysti því að þingmaðurinn og aðrir sem að þessu máli koma og sýna því áhuga muni meta það á réttum rökum en ekki út frá einhverjum fyrirframskoðunum. Um þetta mál er sjálfsagt að reyna að leggja fram þær skýrslur sem menn vita réttastar og sannastar. Hins vegar vill oft fara svo að það er erfitt að setja slíkan samanburð í tölur.
    Í öðru lagi um lánskjörin virðist mér að á lánskjörum Íslandsbanka annars vegar og ríkisbanka eða stofnana hins vegar sé mjög lítill munur og dagsveiflur eða dagbrigði í markaðskjörum skipti þar meira máli en munurinn á stofnununum. Reyndar kemur á móti að í lánskjörum frá Búnaðarbanka þarf að reikna með ríkisábyrgðargjaldi vegna lántökunnar sem ég hygg að hv. þm., fyrrv. fjmrh., kannist mæta vel við. Ég hygg að það gjald jafni þessi met.
    Ég vil svo að lokum segja um það sem gerst hefur í fjármálum bankanna í löndunum í kring að ég tel það vera eitt af þeim efnum sem nauðsynlegt sé að ræða í samhengi við það skipulagsmál sem hér var rætt. Hins vegar er ég ekki á þessari stundu tilbúinn til að taka afstöðu til þess hvort rétt kunni að reynast að selja hlutabréf á næsta ári eða einhvern tíma síðar. Það er mín skoðun að þarna eigi fyrst og fremst það sjónarmið að gilda hvort við erum að bæta skipulag bankanna til frambúðar. Fjáröflunarsjónarmiðið hlýtur að koma í annarri röð. Að sjálfsögðu verður að meta markaðsástandið og stöður í þjóðarbúskapnum þegar ákvörðun um sölu er tekin.