Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:13:00 (2326)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek það svo að hæstv. ráðherra muni hugleiða það jákvætt að afla gagna um það hvernig ríkið hefur í ýmsum löndum orðið að setja stórkostlegar fjárhæðir inn í einkabankana á síðustu missirum. Mér er sagt að Bandaríkjastjórn sé t.d. búin að setja inn í einkabankana þar á undanförnum árum upphæð sem nemur hærri tölu en heildarkostnaður Bandaríkjanna við Víetnam-stríðið á sínum tíma var. Og að ráðherra muni einnig skoða samanburð á einkabankanum hér, Íslandsbanka, og Búnaðarbankanum á næstunni og leggja það jafnvel fyrir þingið í frumvarpsgreinargerð eða með öðrum hætti.
    Ráðherrann verður hins vegar að taka afstöðu til þess á næstu vikum hvort á selja hlutabréfin í Búnaðarbankanum á næsta ári eða ekki því það er ein af forsendum fjárlaganna að selja eigi hlutabréfin í Búnaðarbankanum á næsta ári. Ef ráðherrann er sammála mér um það hvað sem líður deilum um rekstrarformið að afar óskynsamlegt sé að ætla sér að selja slík hlutabréf á markaðnum á næsta ári miðað við það sem markaðurinn ber nú þegar af óseldum hlutabréfum, þá þarf auðvitað að taka mið af því í forsendum fjárlagafrv.