Aðgerðir gegn peningaþvætti

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:15:15 (2328)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. Þetta frv. er á þskj. 251. Frv. er eitt af fylgifrv. samningsins um EES og byggir í aðalatriðum á tilskipun Evrópubandalagsins um aðgerðir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis. Það má vel vera að menn staldri dálítið við þetta nýyrði, hugtakið peningaþvætti, sem hér er ætlað til þess að taka yfir það sem kallað er á ensku ,,Money Laundering`` eða hliðstæðum orðum. Að þessari orðasmíð var unnið í samvinnu og samráði við íslenskufræðinga hjá Íslenskri málstöð með það í huga að finna heiti á athöfn sem menn vilja helst ekki vera viðriðnir. Þar af augljós skyldleiki við úrþvætti.
    Sögnin að þvætta þekktist í fornu máli og merkti ýmist að þvo eða þvæla. Sú merking þykir nokkuð góð lýsing á þeim verknaði sem hér er fjallað um. Á vettvangi alþjóðastofnana beinast einmitt fjölmargar aðgerðir gegn því að óprúttnir aðilar komi í umferð illa fengnu fé, það sem hér er kallað peningaþvætti. Fást við það slíkir menn. Hér má nefna til sögunnar Sameinuðu þjóðirnar, Evrópuráðið, Basel-nefndina um bankaeftirlit og alþjóðlegan vinnuhóp sem heitið hefur Financial Action Task Force on Money Laundering og er laustengdur OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Íslendingar koma á einn eða annan hátt að starfi allra þessara alþjóðastofnana sem ég hef nefnt og hafa þess vegna tengst þessum samkomulagsgerðum.
    Tilgangurinn með frv. er að koma í veg fyrir að íslenskar fjármálastofnanir verði notaðar til að dylja slóð fjármuna sem fengnir eru með ólögmætum hætti.
    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að nauðsyn er á því að hérlendir bankar, verðbréfafyrirtæki og aðrar fjármálastofnanir verði ekki misnotaðar á þennan hátt. Á þetta enn frekar við nú þegar við blasir aukið frelsi í fjármagnshreyfingum og rétti til að bjóða fram fjármálaþjónustu milli ríkja.
    Í frv. er ekki berum orðum skilgreint hvað átt er við með peningaþvætti heldur er því lýst með almennum hætti að fjármálastofnanir skuli ekki taka þátt í viðskiptum sem rekja má til refsiverðs verknaðar. Frv. byggir á því að viðbrögð starfsmanna fjármálastofnana miðist við viðskipti sem grunur leikur á að falli almennt undir refsilöggjöfina. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli þingmanna á því að dómsmrh. hyggst leggja tengt frv. fyrir Alþingi um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem öll tvímæli eru af tekin um það að peningaþvætti sé refsiverður verknaður að íslenskum lögum.
    Ég vík nú að gildissviði og helstu efnisatriðum frv. en almennt er ekki að finna hliðstæð ákvæði í gildandi lögum okkar. Hér er lagt til að samheitið fjármálastofnun verði notað fyrir þau fyrirtæki og stofnanir sem falla undir gildissvið þess. Þar er átt við eftirtalda aðila:
    1. Viðskiptabanka, sparisjóði og dótturfélög þeirra.
    2. Stofnanir samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði að því gefnu að frv. um þessar stofnanir sem lagt verður fyrir Alþingi innan skamms verði að lögum.
    3. Líftryggingafélög og séreignalífeyrissjóði.
    4. Verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði.
    5. Útibú erlendra fjármálastofnana hér á landi.
    Meginreglan yrði sú að fjármálastofnanir skuli ekki af ásetningi taka þátt í þvætti peninga. Vísað er til refsilöggjafar um hvaða refsiverða verknaði geti verið hér um að ræða. Lykilatriði í baráttu yfirvalda gegn peningaþvætti er að þeim sé unnt að rekja slóð hinna brotlegu. Krafan um framvísun persónuskilríkja er frumskilyrði fyrir því að þetta geti gerst. Skylt er að krefja viðskiptamenn um sönnur á því hverjir þeir eru í þremur tilfellum:
    1. Við upphaf varanlegs viðskiptasambands, t.d. við stofnun bankareiknings.
    2. Í hvert sinn sem fjárhæð viðskipta fer yfir ákveðin fjárhæðarmörk.
    3. Hvenær sem grunur leikur á að rekja megi uppruna viðskipta til refsiverðs verknaðar.
    Hér er lagt til að starfsmenn fjármálastofnana þurfi ekki að mynda sér skoðun á því hvers konar afbrot gæti verið um að ræða, enda krefðist það sérþekkingar á refsilöggjöf sem ekki er ætlunin að leggja á þá starfsmenn sem hér eiga hlut að máli að afla sér. Það þarf ekki að krefjast persónuskilríkja þegar viðskiptaaðili er önnur fjármálastofnun innan hins Evrópska efnahagssvæðis, enda hvílir þá skyldan á henni

um að berjast gegn þessum ólögmæta verknaði. Hér er gert ráð fyrir því að sú skylda hvíli á stjórnendum og starfsmönnum fjármálastofnana að öll viðskipti sem vekja grun um að rekja megi til refsiverðs verknaðar verði athuguð gaumgæfilega með það í huga hvort tilkynna skuli um þau til ríkissaksóknara. Þá er mælt fyrir um að forðast skuli slík viðskipti þar til ríkissaksóknara hefur verið um þau tilkynnt. Sömu aðilum er skylt að segja ekki frá því að tilkynning um grunsemdir hafi verið send til ríkissaksóknara eða rannsókn sé hafin vegna gruns um refsiverðan verknað. Þetta gildir jafnt gagnvart hinum grunaða viðskiptamanni sem og öllum utanaðkomandi aðilum.
    Til að fyrirbyggja að fjármálastofnanir verði notaðar til að þvætta peninga er lagt til að þær komi á innra eftirliti og veiti starfsmönnum sérstaka þjálfun til þess að reyna að greina þau viðskipti þar sem um peningaþvætti gæti verið að ræða. Slíkt eftirlit gæti m.a. falist í að fjármálastofnun útnefni sérstakan starfsmann sem beri ábyrgð á hvernig ákvæði frv. þessa verði framfylgt verði það að lögum. Eðlilegt virðist að slíkur starfsmaður taki af skarið með það hvort tilkynning um grunsemdir skuli send ríkissaksóknara. Gert er ráð fyrir að það sé hverri fjármálastofnun í sjálfsvald sett hvernig hún stendur að fræðslu og þjálfun starfsmanna svo framarlega að vissum lágmarkskröfum verði fullnægt. Hér er lagt til að ákvæðið um innra eftirlit og þjálfun starfsmanna öðlist gildi á 6 mánuðum eftir að lögin taka gildi. Reiknað er með því að fjármálastofnanir nýti þann aðlögunartíma til nauðsynlegs undirbúnings.
    Eitt af helstu nýmælum frv. er að gert er ráð fyrir afnámi bankaleyndar þegar rannsóknaraðili óskar eftir upplýsingum sem nauðsynlegar eru taldar til rannsóknar máls. Samkvæmt gildandi rétti þarf dómsúrskurð til að afnema bankaleynd vegna rannsóknar opinbers máls. Þó ber að leggja á það áherslu að ákvæðið leiðir aðeins til breyttrar framkvæmdar þegar um rannsókn peningaþvættismála er að tefla. Að auki þarf beiðni rannsóknaraðila ávallt að liggja fyrir áður en bankaleynd er aflétt. Þegar starfsmaður eða stjórnandi fjármálastofnunar veitir lögreglu eða ríkissaksóknara upplýsingar í góðri trú telst það því ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Í þessu felst m.a. að samningur um þagnarskyldu geti aldrei rutt til hliðar skyldu samkvæmt frv. til að veita rannsóknaraðilum upplýsingar. Þá er gert ráð fyrir því að slík upplýsingagjöf leggi hvorki refsiábyrgð né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi stofnunum, stjórnendum þeirra eða starfsmönnum.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er skilgetið afkvæmi þess aukna alþjóðasamstarfs sem Íslendingar eru nú þátttakendur í. Ísland má ekki verða griðland fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Ákvæði frv. miða að því að koma í veg fyrir það. Ég legg áherslu á að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.