Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:15:29 (2346)

     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég nota mér ekki þennan rétt í þingsköpum að veita andsvar við ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., Pálma Jónssonar, til þess að andmæla honum heldur til þess miklu frekar að leiðrétta það sem kom fram í mínu máli áðan, ef það mátti skilja það svo, að ekki hefði aðra greint á um málið en fjmrn. og Ríkisendurskoðun. Vissulega er það hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. varðandi þessi framsetningaratriði að það hefur verið umræða í þingi, í þjóðfélaginu og fjárln. margsinnis fjallað um málið og einstakir þingmenn látið skoðanir sínar koma fram á því, m.a. í umræðum um fjárlög og fjáraukalög á síðasta þingi. Ég vil aðeins minna á að þá vorum við hv. 2. þm. Norðurl. v. kannski ekki alveg samstiga hvað varðaði afgreiðslu málsins. Það var ekki ágreiningur um efnisatriði heldur það að ég lýsti þeirri skoðun minni og geri enn, ég gerði það áðan, að mér fyndist nauðsynlegt að í þessi mál fengist ákveðin niðurstaða. Við gætum ekki sætt okkur við að þessar tvær opinberu stofnanir, fjmrn. annars vegar og Ríkisendurskoðun hins vegar, létu frá sér fara aftur og aftur ósamhljóða niðurstöðu eða afstöðu til mála. Ég lét það koma fram á síðasta þingi að ég vildi að reynt yrði að finna endanlega niðurstöðu í málninu og við næðum saman um það hverng ætti að standa að þessu. Það yrði þá reynt að taka á málinu í heild en ekki á einstökum þáttum við þessa afgreiðslu og svo einhverjum viðbótarþáttum næst þar til við værum komnir með endanlegu afgreiðsluna. Heldur væri reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig ætti að

fjalla um málið og hún sett fram þegar það lægi fyrir og þá auðvitað á þann hátt sem lög mæla fyrir. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni, hv. 2. þm. Norðurl. v., um það hvernig eigi að taka á málinu þegar þetta liggur fyrir. Það kann að vera að það verði ekki öðruvísi en svona, að menn séu að taka eitt og eitt atriði fyrir í senn eftir því sem það kemur upp. Best hefði þó verið að menn legðu línu í upphafi sem hægt væri síðan að vinna eftir.