Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:42:59 (2350)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Mér þykir ástæða til að taka alveg sérstaklega undir með hæstv. fjmrh. um þann þátt í máli hans sem fjallaði um að ná um það heildarsamkomulagi ef breytingar verða gerðar á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings umfram það sem gert er ráð fyrir í lögunum um þessi efni. Ég er alveg sannfærður um að ef þessum lögum er breytt og breyting verður á framsetningu fjárlagafrv., fjáraukalaga og ríkisreiknings í kjölfar slíkra breytinga þá er það vandasamt verk. Ég styð þá viðleitni hæstv. ráðherra að vanda slíkt verk og ná um það víðtæku samkomulagi. Þetta haggar ekki því að á meðan slík breyting hefur ekki komist á ber auðvitað að fara að þeim lögum sem gilda. Hæstv. ráðherra vitnaði til 8. kafla athugasemda með fjárlagafrv. Sá kafli hefur orðið mér tilefni til tilvitnanna fyrr úr ræðustól á þessu Alþingi. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni ,,Greiðsluuppgjör og framsetning fjárlaga``:
    ,,Lagðar hafa verið fram tillögur um breytta framsetningu fjárlaga til samræmis við ríkisreikning. Í fyrsta lagi er talið nauðsynlegt að sem mest samræmi sé milli ríkisreiknings og fjárlaga. Í öðru lagi er ekki talið fullnægjandi að áfallnar en ógreiddar skuldbindingar ríkissjóðs séu færðar í ríkisreikningi eftir lok

fjárhagsársins. Nauðsynlegt er að þær skuldbindingar sem ákveðnar eru eða falla á ár hvert sem hluti eða afleiðing af ríkisstarfseminni komi fram í fjárlögum. Að öðrum kosti næst ekki yfirsýn yfir raunveruleg ríkisumsvif og breytingar þeirra frá einu ári til annars.``
    Það sem hér segir að tillögur hafi komið fram um er nákvæmlega það sem kveðið er á um í lögunum eins og þau eru í dag og þarf engar tillögur um. Í stað þessa kafla í athugasemdum við fjárlagafrv. hefði átt að standa að hæstv. fjmrh. hefði ákveðið að framfylgja lögunum eins og þau eru vegna þess að deilur hafa staðið um það í mörg ár og ég óska honum þeirrar giftu að hann megi standa svo að færslu þessara mála sem og annarra að það þurfi ekki að velkjast í vafa um að það sé í samræmi við ákvæði laga.