Hópuppsagnir

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:51:26 (2351)

     Frsm. félmn. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um hópuppsagnir. Nál. sem er á þskj. 266 er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn Berglindi Ásgeirsdóttur, Gylfa Kristinsson og Gunnar Sigurðsson frá félmrn. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Hrafnhildur Stefánsdóttir frá VSÍ, Hjörtur Eiríksson frá VMSS, Björn Arnórsson frá BSRB, Páll Halldórsson, Birgir Björn Sigurjónsson og Eggert Lárusson frá BHMR, Ari Skúlason frá ASÍ, Ragnhildur Hjaltadóttir frá samgrn., Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Jónas Haraldsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá studdist nefndin við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá VMSS, VSÍ, Kennarasambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, BHMR, ASÍ, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Sambandi byggingamanna og Landssambandi vörubifreiðastjóra.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:
    7. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1993. Frá sama tíma fellur úr gildi 55. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.``
    Undir nál. rita: Guðjón Guðmundsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, með fyrirvara, Ingibjörg Pálmadóttir, Drífa Hjartardóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Össur Skarphéðinsson, Eggert Haukdal og Pétur Sigurðsson.