Hópuppsagnir

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:53:46 (2352)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Með þeirri breytingu sem nefndin leggur til á frv. má segja að það sé orðið vel ásættanlegt og horfi til bóta í lagasetningu hvað varðar réttindi launþega hér á landi.
    Það er rétt að taka fram að með þessari breytingu er verið að breyta frv. úr EES-frv. í almennt lagafrv. sem mun standa hvað svo sem verður um afdrif frv. um EES-samninginn sem fyrir liggur í þinginu. Hér er því um að ræða algerlega sjálfstætt frv. eftir þessa breytingu. Þó eru ýmis atriði sem vert er að nefna í þessu þannig að því sé til skila haldið.

    Í fyrsta lagi vil ég taka sérstaklega fram að frv. nær til allra launþega í landinu og þar með talið opinberra starfsmanna og er óumdeilt. Það nær einnig til allra atvinnurekenda í landinu, þ.e. jafnt á almennum vinnumarkaði sem hjá hinu opinbera, ríki eða sveitarfélögum. Gildissvið frv. er því þetta.
    Þá eru atriði sem fram komu í umsögnum og eru ábendingar eða beinar óskir um breytingar á frv. sem ég vildi greina frá. Þær eru að mínu viti þó ekki svo veigamiklar efnislega að það breyti afstöðu minni til frv. hvort þær verði samþykktar eða ekki. Ég tel samt rétt að greina frá þeim og áskilja mér rétt til að flytja brtt. til að mæta þessum tillögum umsagnaraðila við 3. umr. málsins.
    Í fyrsta lagi er nokkuð almenn ábending og tillöguósk frá umsagnaraðilum um að í a-lið 1. gr. verði tölunni 20 breytt í töluna 16 með þeim rökum að það sé til samræmis við samkomulag aðila vinnumarkaðarins sem gert var á sl. vori. Það þýðir að ákvæði 1.--4. gr. frv. eigi við um uppsagnir ef um er að ræða a.m.k. tíu starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 16 eða fleiri eða færri en 100 starfsmenn í vinnu í stað 20.
    Í öðru lagi kom fram líka sú ábending að breyta tölunni tíu í þessum sama staflið í töluna fjóra þannig að ákvæði frv. ættu við ef fjórum starfsmönnum eða fleirum væri sagt upp í stað tíu. Það eru nokkur rök fyrir þessari tillögu. Bent er á að samkvæmt lögum frá 1979 er skylda að tilkynna félmrn. og viðkomandi stéttarfélagi um fyrirhugaða uppsögn ef um fjóra eða fleiri er að ræða. Það er gert ráð fyrir í frv. að þessi tilkynningaskylda haldist áfram. Þarna væri þá samræmis gætt í frv.
    Þá vil ég koma á framfæri þeirri ábendingu sem fram kom frá Alþýðusambandi Íslands sem lagði nokkra áherslu á að inn í frv. bættist einn liður úr fyrrgreindu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá því sl. vor og fjallar um framkvæmd hópuppsagna. Ég tel vel athugandi að fella þennan lið samkomulagsins inn í frv. en um það er ekki samstaða og ég læt ekki brjóta á því af minni hálfu hvað frv. varðar en tel þó rétt að koma þessari ábendingu á framfæri og afstöðu mína til hennar.
    Þá vil ég líka minna á b-lið í 5. gr. frv. sem undanskilur áhafnir skipa ákvæðum frv. Eins og þingmönnum er kunnugt fjallar frv. um hópuppsagnir og ákveðið ferli sem fer í gang þegar þær eru ráðgerðar en undantekningar frá ákvæðum frv. eru taldar upp í 5. gr. Meðal undantekninga eru áhafnir skipa. Engar skýringar fylgja með í frv. hvorki í greinargerð með þessari grein né almennum athugasemdum hvers vegna þetta er svo en við eftirgrennslan í nefndinni hafa þau svör fengist að vísað er til kjarasamninga sjómanna, alþjóðasamninga á sviði siglinga og í þriðja lagi í sjómannalög. Þar munu réttindi sjómanna vera tryggð til jafns við þau réttindi sem verið er að tryggja öðrum launþegum í frv.
    Ég hef ekki kannað það til hlítar hvort þetta eru réttar ábendingar. Í ljósi þess að samtök sjómanna, þ.e. Farmanna- og fiskimannasambandið, hafa gert athugasemdir áskil ég mér rétt til að skoða þetta á milli 2. og 3. umr. Hitt er skaði að ekki kom umsögn um frv. frá Sjómannasambandi Íslands en ég hygg að ég fari rétt með að þeim var gefinn kostur á að veita umsögn. ( Gripið fram í: Þeim var boðið að mæta á fundinn en komu ekki.) Já, þeim var boðið að mæta á fund nefndarinnar en komu ekki. Það má því segja að nefndin hafi gert sitt til að gefa samtökum undirmanna tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum að um frv.
    Aðrar athugasemdir sem fram komu eru ekki margar. Þó vil ég nefna tvær. Sú fyrri er frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem leggst í raun gegn þeim þætti frv. að vinnumiðlun sveitarfélaga skuli leita lausna á þeim vanda sem uppsagnirnar kunna að valda. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Afleiðingin er aukið eftirlit, umsýsla, skriffinnska og kostnaður sveitarfélaga. Stjórn sambandsins telur eðlilegt að fyrirkomulag þessara mála haldist óbreytt.``
    Ég er dálítið undrandi á þessari umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, einkum og sér í lagi í ljósi þeirrar áherslu sem stjórn þessa sambands leggur á að fá til sín aukin verkefni, að leggjast þá gegn því að þeirri vinnumiðlun sem þeir hafa með höndum séu ætluð aukin verkefni og að vera nær því raunveruleg vinnumiðlun. Ég hlýt því að láta þessa afstöðu sambandsins koma fram mönnum til íhugunar og vonandi setja þeir fram skýringar þó síðar verði á þessari afstöðu sinni. Eins og hún birtist okkur lítur svo út sem þeir leggist gegn því að stjórn vinnumiðlunar vinni frekar að vinnumiðlun.
    Þá vil ég að lokum vekja athygli á að Vinnumálasamband samvinnufélaganna bendir á það sem þeir telja staðreynd að víða hafi orðið misbrestur á því að stjórnarnefndir vinnumiðlunar hafi verið skipaðar í sveitarfélögum landsins sem eru með yfir 500 íbúa eins og kveðið er á um í lögum nr. 18/1985. Ef rétt reynist er um nokkuð umhugsunarefni að ræða ef svo er sjö árum eftir gildistöku laganna að víða hafi orðið misbrestur á hjá sveitarfélögum að uppfylla þetta lögbundna hlutverk sitt. Ég hygg að það verði að skoða þetta mál nánar til að fá úr því skorið við hversu mikil og gild rök umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaga styðst í þessu efni.
    Fleira ætla ég ekki að segja að þessu sinni, virðulegi forseti, um efni frv. Ég ítreka þá fyrirvara sem ég áskildi mér en einnig almennan stuðning minn við frv. eins og það lítur út eftir brtt. nefndarinnar.