Hópuppsagnir

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:04:10 (2353)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um hópuppsagnir sem kemur fram m.a. til að tryggja í framkvæmd að Ísland uppfylli þær reglur sem gilda munu á sviði félags- og vinnumála á Evrópska efnahagssvæðinu og aðilar vinnumarkaðarins geti fylgst með þátttöku útlendinga hér á landi þannig

að íslensk lög og íslenskir kjarasamningar séu framkvæmdir.
    Allir í hv. félmn. voru sammála um að burt séð frá EES-samningnum væri þetta frv. um hópuppsagnir hið besta mál og þess vegna er borin fram brtt. með nál. sem allir nefndarmenn voru sammála um. Um frv. var meiri samstaða í félmn. en um mörg önnur mál sem við fjöllum um þar því frv. felur í sér nokkra réttarbót til handa starfsfólki þegar til svokallaðra hópuppsagnar kemur. Það lengir þann feril frá því að uppsögn er ákveðin og þangað til til henni kemur. Það lögfestir líka samráð atvinnurekenda og trúnaðarmanna í þessu sambandi.
    Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um höfum við fengið athugasemdir við frv. Ég ætla ekki að endurtaka þær. Ég er sammála honum um 1. gr. M.a. var ASÍ með athugasemdir þar að lútandi að vegna þess hversu mörg fyrirtæki á Íslandi eru lítil vexti þá sé rétt að í 1. gr. komi fjórir starfsmenn í staðinn fyrir tíu þegar til uppsagna kemur og í staðinn fyrir 20 komi 16. Þetta rakti hv. síðasti ræðumaður mjög vel og mér finnst vel koma til greina að koma með brtt. þar að lútandi.
    Ég er líka sammála því sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að ég er svolítið undrandi á svari Sambands ísl. sveitarfélaga sem vill ekki fá þetta aukna verksvið til sín. Ég tel alveg nauðsynlegt að sveitarfélögin taki þetta verkefni og séu meira vakandi yfir því hvað er að gerast í sveitarfélögunum varðandi þróun atvinnumála. Ég tel því rétt að lögfesta það. Ég er í meginatriðum sammála þessu frv. og mun samþykkja það þegar til afgreiðslu kemur.