Hópuppsagnir

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:07:42 (2354)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og sést á nál. þá skrifa ég undir það með fyrirvara. Sá fyrirvari minn lýtur að því sama og hér hefur verið gert að umtalsefni af öðrum félagsmálanefndarfulltrúum sem hafa talað, þ.e. bæði 5. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, og 2. þm. Vesturl., Ingibjörgu Pálmadóttur. Þetta varðar ekki síst a-lið 1. gr. frv. þar sem talað er um að samráðið skuli fara af stað ef fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á 30 daga tímabili er a.m.k. tíu starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu.
    Við vitum að íslensk fyrirtæki eru mörg hver lítil og hafa ekki mjög marga menn í vinnu. Ef við erum að tala um fyrirtæki þar sem starfa við skulum segja 21--22 fer samráðið ekki af stað fyrr en nánast helmingnum af starfsmönnum er sagt upp, þ.e. tíu. Þess vegna fannst mér að það væri eitthvað sem við þyrftum að velta fyrir okkur og ég vildi gjarnan sjálf hugsa á milli umræðna hvort ekki bæri að flytja brtt. við frv. og hugsanlega í þá veru sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist á áðan, þ.e. að þarna kæmu fjórir starfsmenn í staðinn fyrir tíu og talan 16 í stað 20. Þetta var það sem minn fyrirvari gekk út á.
    Þegar ég fór að hugsa um þetta, þó ég sjái vissulega í frv. ákveðna réttarbót og telji þetta jákvætt mál sem ætti að fá umfjöllun og afgreiðslu hér óháð samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, fannst mér samt þegar ég fór að skoða málið nánar að réttarbótin væri kannski ekki eins mikil og mér fannst þegar ég kom fyrst að málinu. Eitt af því sem kom t.d. upp í hugann voru uppsagnir manna í álverinu að undanförnu. Þegar maður fór að reikna það út kæmi þetta frv., ef það hefði orðið að lögum, ekki til álita í því sambandi vegna þess að það þarf að segja upp a.m.k. 10% starfsmanna í fyrirtækjum eins og álverinu. Ég veit ekki hvað þar eru margir starfsmenn en þeir skipta sjálfsagt einhverjum hundruðum. Það þarf því talsvert miklar uppsagnir til þess að þessi samráðsferill allur fari af stað.
    Samt sem áður er bót að frv. Þó að það sé kannski ekki sú mikla réttarbót sem mér sýndist í fyrstu er það samt til bóta og engin ástæða til annars en fagna því og styðja það.