Vinnumarkaðsmál

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:21:56 (2357)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér kemur annað frv. nokkuð skylt því sem rætt var hér á undan. Þetta er allt saman hluti af hinum sameiginlega vinnumarkaði hins Evrópska efnahagssvæðis með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Það sem er jákvætt við þetta frv. sem hér er til umræðu er fyrst og fremst 5. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma, fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.``
    Þetta er mjög mikilvægt atriði. Menn hafa verið að deila um að á íslenskum kaupskipum séu útlendingar með miklu lakari kjör. Það er tryggt með þessum lögum að svo geti ekki verið. Það er mjög mikilvægt atriði.
    En það sem orkar tvímælis, og þess vegna er ég með fyrirvara varðandi málið er það að aðilar frá EES-löndum geta komið án þess að hafa vinnu, verið hér í þrjá mánuði og leitað vinnu og fengið atvinnuleysisbætur. Vegna þess hversu mikið atvinnuleysi er í Evrópu almennt óttast ég að stór hópur af atvinnulausu fólki geti komið og dvalist hér í þrjá mánuði og leitað sér að vinnu. Slíkir hópar geta valdið vissri röskun. Mér finnst ekki nægilegur öryggisventill við það hvenær við getum sagt að nú sé komið nóg.