Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:54:06 (2367)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að leggja fram tvo milljarða til að flýta framkvæmdum við vegabætur á næsta ári var eðlilegt að horft yrði til Gilsfjarðarbrúar þegar það var skoðað vegna þess að Gilsfjarðarbrú er á áætlun 1993 og 1994. Menn hafa talað um að hér væri ekki um fullhannað verk að ræða. Það er alveg rétt, þetta er ekki fullhannað verk en hönnun er langt komin. Ég býst ekki við að farið verði í fullnaðarhönnun fyrr en búið er að ákveða hvenær framkvæmdir eiga að hefjast.
    Það hefur komið fram í umræðunum að það hafi verið ákveðið að um leið og brúin yfir Dýrafjörð væri fullbúin yrði næsta verkefni Gilsfjarðarbrú. Það er búið að vígja brúna yfir Dýrafjörð með pomp og prakt sem betur fer. Því bjuggust menn við því, sérstaklega þegar meira fé var lagt til vegamála en við var búist, að þetta yrði skoðað. Þetta er málefni sem er sameiginlegt hagsmunamál okkar Vestfirðinga og íbúa Vesturlands eins og kom fram áðan hjá hæstv. umhvrh. Það er slæmt að svona mikill hiti skuli hlaupa í þetta mál því þetta er mál sem við eigum að sameinast um. Mér fannst svolítið erfitt að hlusta á það hjá hv. 1. þm. Vesturl. áðan þegar hann sagði að Gilsfjarðarbrú hefði ekki verið á dagskrá þegar þessir 2 milljarðar voru skoðaðir til nýrra framkvæmda. Mér fannst það slæmt.