Umboðsmaður barna

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:30:33 (2373)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Eins og menn rekur eflaust minni til hef ég á fjórum þingum lagt fram frv. til laga um embætti umboðsmanns barna. Ástæðan fyrir því að ég flutti málið í fjórða sinn á síðasta þingi var sú að í greinargerð fyrir frv. sem þá lá fyrir, frv. til laga um vernd barna og ungmenna, var sérstaklega tekið fram af hálfu sifjalaganefndar að hún teldi mikilvægt að stofnað yrði embætti umboðsmanns barna.
    Málið velktist síðan að venju í hv. allshn. þar til þingi var að ljúka og hlaut þá að lokum afgreiðslu í þá veru að því var vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Í umræðum um frv., þegar það kom úr nefnd, tók ég fram að ég hlyti að verða að sætta mig við þessa afgreiðslu í trausti þess að hæstv. dómsmrh. væri málinu vinveittur og kynni að undirbúa setningu laga um embætti umboðsmanns barna enda sagði hæstv. ráðherra í þessari umræðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég skalt taka það fram að gefnu tilefni að ég lýsti því við fulltrúa hv. allshn. og enn fremur við hv. flm., 14. þm. Reykv., að ég væri reiðubúinn að beita mér fyrir því að sifjalaganefnd mundi undanbragðalaust taka þetta mál til athugunar í sumar og þau álitaefni sem hv. nefnd telur nauðsynlegt að könnuð verði frekar áður en aðrar ákvarðanir verða teknar og við það mun ég að sjálfsögðu standa.``
    Þessi orð glöddu vissulega og því hef ég leyft mér að ganga eftir þeim við hæstv. dómsmrh. Ég hef því lagt fram fsp. á þskj. 146 sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hefur verið staðið við loforð frá síðasta þingi um að fela sifjalaganefnd athugun á frumvarpi til laga um embætti umboðsmanns barna?``