Umboðsmaður barna

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:33:05 (2374)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sifjalaganefnd hefur haft til athugunar frv. til laga um embætti umboðsmanns barna. Að auki var talið rétt og eðlileg verklagsregla að dómsmrn. kannaði málið betur með því að afla gagna, einkanlega erlendis frá, um þetta viðfangsefni. Eins og kunnugt er hafa farið fram miklar umræður víða erlendis um réttarstöðu barna og úrræði af því tagi sem hér er fjallað um. Vissulega hafa komið fram skiptar skoðanir en rétt þótti að afla upplýsinga um umræður af þessu tagi erlendis frá og ráðuneytið hefur unnið að því í sumar. Í haust tók ráðuneytið einnig þátt í sérstakri ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins í Búdapest þar sem eitt af aðalumræðuefnunum var álitaefnið um það hvort embætti umboðsmanns barna væri heppilegt úrræði til að tryggja réttarstöðu þeirra.
    Þegar þessari gagnasöfnun verður lokið, sem ég á von á að verði innan skamms, verður sifjalaganefnd afhent þau gögn og þær upplýsingar og henni falið að gera lokaathugun og gefa upp lokaálit á viðfangsefninu.