Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:50:22 (2384)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson ) :
    Virðulegi forseti. Það þarf ekki að rekja þann mikla skuldavanda sem loðdýrabændur hafa ratað í á síðustu árum. Á sínum tíma leit hið opinbera og ekki síst samtök bænda svo á að loðdýrarækt væri æskilegur farvegur fyrir búháttabreytingar. Bændur voru hvattir ekki síst af þessum aðilum til að hefja loðdýrarækt og þessir aðilar, ríki og samtök bænda, bera því verulega ábyrgð þarna á.
    Nú hefur ríkisstjórnin gengið fram fyrir skjöldu og ákveðið að horfast í augu við þá staðreynd að lán sem veitt var ríkisábyrgð á eru meira og minna töpuð. Þess vegna hafa stjórnarflokkarnir beitt sér fyrir því að ríkisábyrgðalánin verði felld af bændunum. Markmið þeirrar lausnar er að koma í veg fyrir að bændur verði boðnir upp, koma í veg fyrir að lánadrottnar knýi jarðir þeirra á uppboð. Í þessu skyni þarf Stofnlánadeildin m.a. að fella niður helming af heildarskuldbindingum sínum til greinarinnar. Meðan verið var að vinna að lausn þessa máls kom það fram að Stofnlánadeildin var reiðubúin til þessa. Af því að ég vann þetta mál fyrir hönd Alþfl. meðal annarra vil ég að það komi skýrt fram að það er alger forsenda samkomulagsins um lausn á vanda loðdýrabænda að Stofnlánadeildin standi við sinn þátt í henni.
    Hins vegar er nauðsynlegt fyrst málið er komið á rekspöl að hraða þessari vinnu og þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, hvort landbrh. hyggist beita sér fyrir viðræðum við Stofnlánadeild landbúnaðarins til þess að móta vinnureglur um skuldaskil loðdýrabænda. Ég spyr jafnframt hvort ráðherrann muni beita sér fyrir því að Stofnlánadeild landbúnaðarins stöðvi innheimtu hjá loðdýrabændum uns vinnureglurnar liggja fyrir. Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að það er staðhæft í mín eyru af loðdýrabændum að þrátt fyrir að tillögurnar liggi nú fyrir sé Stofnlánadeildin enn að ganga harkalega fram gagnvart bændum í sínum innheimtum. Mér finnst það ekki gott mál og vil þess vegna varpa þessari spurningu til hæstv. landbrh.