Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:56:03 (2386)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra þessi svör. Ég tek eftir því að hann kveðst vera vel búinn undir það verkefni að móta vinnureglur um skuldaskil. Spurning mín var sú hvort hann hyggist beita sér fyrir viðræðum um að Stofnlánadeildin móti slíkar vinnureglur. Ástæðan er sú að við höfum verið að vinna að þessu máli lengi og mér finnst framgangur þess ekki nógu hraður. Ég tel að það sé æskilegt að núna þegar loksins er komin lausn, þegar ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti lýst yfir að hún vilji vinna að lausn þessa máls, verði unnið hratt. Ég legg áherslu á það og þess vegna skora ég á landbrh. að beita sér fyrir viðræðum um mótun þessara vinnureglna.
    Ég tók líka eftir því að ráðherrann orðaði það svo að hann skildi það svo að innheimtur lægju niðri. Ég skil orð ráðherrans þannig að hann hafi ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að Stofnlánadeildin stöðvi innheimtuna. Ég lýsti því hér yfir áðan að ég hef á þessum morgni fengið upplýsingar hjá loðdýrabændum sem eru þess eðlis að enn sé verið að ganga hart að bændum um innheimtu þessa máls. Þess vegna tel ég æskilegt að það komi hér fram hvort ráðherrann muni beita sér fyrir því, mælast til þess við til að mynda formann Stofnlánadeildarinnar eða aðra aðila sem henni tengjast, að deildin stöðvi innheimtu þangað til þessar vinnureglur liggi fyrir, þangað til það er ljóst hvernig Stofnlánadeildin í samvinnu við ríkisvaldið ætlar að ljúka þessu máli. Ég tel að það sé orðið mjög brýnt að gera það. Þarna er um að ræða einar 250 fjölskyldur og við viljum auðvitað beita okkur fyrir því að jarðir þeirra verði ekki boðnar upp og þær fjölskyldur sem hafi sitt framfæri af þeim lendi ekki á vonarvöl. Þess vegna hvet ég ráðherrann til þess að beita sínu mikla valdi og sannfæringarkrafti sem gekk vel til að mynda á Alþfl. í þessu máli líka á Stofnlánadeildina.