Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:00:10 (2388)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að undirstrika það hvað þjóðin er gæfusöm og kemur fram í máli formanns þingflokks Alþfl. að eiga Búnaðarbanka sem er ríkisbanki. Það er auðvitað augljóst mál að ekki væri hægt að gera þessar kröfur til Stofnlánadeildar eða Búnaðarbankans ef hann væri orðinn hlutafélagabanki. Eins og kunnugt er virðast þessir svokölluðu hlutafélagabankar eins og Íslandsbanki vera firrtir öllum félagslegum skyldum. Ríkisbankarnir hafa tekið á sig miklar félagslegar skyldur og Búnaðarbankinn hefur staðið við þær á mörgum sviðum gagnvart bændastéttinni í landinu. Mér þykir vænt um að málið skuli hafa þróast þannig að hv. formaður þingflokks Alþfl. skuli hafa gert sér grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd.