Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:12:25 (2399)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það eru nú orðnar undarlegar umræður hér á hinu háa Alþingi. Ég hef setið undir því að hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, brigsli mér um það að hafa legið á tillögum til úrbóta í málefnum loðdýrabænda í hálft annað ár og þegar ég síðan tek upp hið sama efnisatriði og hann hafði, eins og ég tók eftir, tvítekið í ræðu sinni, þá kemur hér hver á eftir öðrum og brigslar mér um útúrsnúninga, ég snúi út úr málum á grófan hátt og þar fram eftir götunum. Ef ég hefði ekki vakið athygli á ummælum hv. þm. hefði það staðið eftir að ég hefði legið á þessum tillögum í hálft annað ár. Það eru staðreyndir málsins.
    Ég vil mælast til þess við hv. þm. að hann breyti ekki ræðu sinni þegar hann fær hana til yfirlestrar sem handrit heldur láti hana standa eins og hann sagði hana hér. Jafnframt vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að hv. þm. tók maí á sl. ári til viðmiðunar, fyrsta mánuð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, talaði um að á þeim tíma hefðu legið fyrir tillögur til úrbóta fyrir loðdýrabændur en ég hefði ekki verið maður til að koma þeim í verk. Þetta voru efnisatriði ræðu hans, en það er auðvitað ekki útúrsnúningur af minni hálfu þó ég svari greinilega því sem hv. þm. segir, enda vita menn að hann er glöggur maður og tekur ekki til máls að óþörfu hér á hinu háa Alþingi.