Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:14:22 (2401)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Örlög þess fólks sem lagði fjármuni sína í loðdýrarækt hafa verið mikil harmsaga og það er dálítið sérkennilegt að hæstv. landbrh. skuli hér á Alþingi nota umræður um þetta mál til þess að höggva í garð fyrirrennara síns með ómaklegum hætti sem er mjög undarlegur fyrir okkur sem þekkjum sögu þessara mála í tíð síðustu ríkisstjórnar. Að bera það á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann hafi ekkert gert í málefnum loðdýrabænda meðan hann var landbrh. er svo fáránleg, ódrengileg og ósmekkleg ásökun að það væri ráðherra sæmst að strika það út úr ræðu sinni fyrst hann á annað borð er farinn að ræða um hvað sé gert við handrit. Við þekkjum það vel sem sátum í þeirri ríkisstjórn hvernig þáv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, lagði margar vikur og mánuði í að reyna að finna lausn, bæði á vanda greinarinnar almennt, þeirra einstaklinga sem voru að missa eigur sínar og fjölskyldna þeirra sem voru að missa eigur sínar vegna þess að menn höfðu trúað á möguleika þessarar greinar.
    Ég ætla heldur ekki að fara að karpa við hv. þm. Össur Skarðhéðinsson um hlut Alþfl. í þessu máli í fyrri ríkisstjórn en ég þekki auðvitað vel hvernig við urðum að bíða oft mánuðum saman í ríkisstjórninni eftir að niðurstaða fengist í þingflokki Alþfl. varðandi þá tillögugerð sem þáv. landbrh. Steingrímur J. Sigfússon var með. Hæstv. ráðherra hefur óskað eftir því að bera af sér sakir. Honum er það að sjálfsögðu frjálst en það væri drengilegast af honum að biðjast afsökunar á ógætilegum ummælum sínum hér áðan.