Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:19:36 (2406)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég bað um orðið um þessa fsp. fyrir allnokkuð löngu síðan og hef síðan hlýtt í mörgum ræðum á umræður um fyrirspurnina undir öðrum dagskrárliðum. Menn bera af sér sakir og tala um þingsköp og það er að mörgu leyti ekki óeðlilegt að umræður verði nokkuð tilfinningaþrungnar undir umræðum um þessi málefni.
    Það er ljóst að fyrirspyrjandi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og hæstv. landbrh. eru mjög farnir að ókyrrast yfir frammistöðu ríkisstjórnar sinnar í málefnum þessa fólks. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að hann hefði í dag skrifað bréf til Stofnlánadeildar sem í segir að heimildar verði aflað til afskriftar allt að helmingi af lánum loðdýrabænda. Sú heimild er því ekki fyrir hendi í dag 18 mánuðum eftir að þeir tóku við málinu. Hvað hafa þeir verið að gera í 18 mánuði? ( Gripið fram í: Það þarf lagaheimild.) Það þarf lagaheimild já, og þeir hafa haft þau tök sem þarf til þess að knýja fram þessa lagaheimild ef þeim hefði verið einhver alvara með að ætla að bregðast við vanda þessa fólks. Nú eru þeir greinilega komnir með mikið samviskubit (Forseti hringir.) og hæstv. ráðherra bregst við því með því að ráðast á fyrrv. samgrh. Það kalla ég ómaklegt og þau ummæli eru dauð og ómerk.