Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:21:16 (2407)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Stundum þekkir maður hæstv. núv. landbrh. þegar hann kemur í pontuna. Það eru gömul tilþrif sem hann sýnir og gerði það hér svona nokkurn veginn þegar hann gekk niður úr stólnum áðan en honum fórst það ekki vel úr hendi. Þegar hann var að finna að því að fyrrv. ríkisstjórn hefði lítið eða nánast ekkert aðhafst í vandamálum loðdýraræktarinnar. Man hæstv. ráðherra ekki eftir því að Byggðastofnun hafi fellt niður skuldir loðdýraræktarinnar? Sat ekki hæstv. núv. landbrh. í stjórn Byggðastofnunar þegar það var gert? Var hæstv. landbrh. ókunnugt um vilja þáv. ríkisstjórnar til þess að það væri gert? Auðvitað ekki.
    Hæstv. ráðherra veit það einnig að fyrrverandi ríkisstjórn greip til margvíslegra annarra aðgerða til aðstoðar þessari grein. Auðvitað er ráðherranum það ljóst. Og ráðherrann veit það einnig að ráðherrar núv. ríkisstjórnar og þá einkanlega forsrh. sjálfur og utanrrh. hafa verið að gagnrýna þá fyrirgreiðslu, þær aðgerðir sem gerðar voru fyrir loðdýraræktina, þeir hafa veist að ýmsum mönnum sem þar hafa farið fyrir með ýmsum svigurmælum vægast sagt þegar þeir hafa verið að beita sér fyrir því að liðka til fyrir þessari atvinnugrein. ( Forseti: Forseti biður nú hv. þm. að gera sér grein fyrir því að þessi ræða fjallar naumast um gæslu þingskapa.) Jú, hún fjallar akkúrat um gæslu þingskapa. ( Forseti: Heldur er þetta efnisleg umræða sem ekki er pláss fyrir hér undir þessum dagskrárlið.) Nú spyr ég hæstv. forseta: Var hæstv. forseti að tala í mínum tíma eða sínum? ( Forseti: Forseti hefur sinn tíma.) Mín rök eru þessi: Vegna þeirra tillagna sem hér liggja fyrir vil ég biðja menn að athuga hvort þeir geti ekki sæst á það og fundið leið til þess að leysa þann vanda og það mál sem er verst í tillögunum, það er um að falla frá niðurgreiðslum á fóðri 1. janúar 1994? Ég bið menn um það að reyna að ná sáttum um þann þátt tillagnanna.