Endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:34:31 (2413)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hef áður hér í ræðustól á Alþingi gagnrýnt það hvernig ráðherrar í núverandi ríkisstjórn standa að því að skipa menn í nefndir sem eiga að endurskoða mikilvæga lagabálka. Þar vil ég sérstaklega nefna þá nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði á síðasta þingi til að endurskoða grunn- og framhaldsskólalögin. Ég er mjög mótfallin því að menn standi að málum eins og þar er gert. Það eru handpikkaðir einstaklingar sem ráðherra eða hans samstarfsfólki eru hugnanlegir. Það sama virtist mér hafa gerst með endurskoðunina á útvarpslögunum. Þar voru líka handpikkaðir einhverjir einstaklingar sem ráðherra líkaði og stjórnarandstaðan kemur þar hvergi að eða ýmsir hagsmunaaðilar sem ætti að sjálfsögðu að tilnefna í slíkar nefndir.
    Mér finnst mjög mikilvægt þegar við erum að vinna að málum í íslensku samfélagi, sem er ekki nema 250 þús. manna, að við reynum að finna einhvern lágmarkssamnefnara í einstökum málum, t.d. varðandi grunnskólann og framhaldsskólann, útvarpsrekstur o.s.frv. Og ef við viljum tryggja þennan lágmarkssamnefnara þá þarf að skipa í nefndirnar með öðrum hætti en ráðherra hefur gert. Slíkan samnefnara er hægt að finna í nefnd sem fleiri tilnefna í og fleiri sjónarmið koma saman.