Kennsla í táknmálstúlkun

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:40:12 (2416)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir fjárln. Alþingis liggur núna beiðni frá Ríkisspítölunum um fjárveitingu á árinu 1993 til að kosta táknmálstúlkun fyrir sjúlinga Ríkisspítalanna sem ekki geta átt í venjulegum samskiptum á rödduðu máli. Það hefur komið fyrir aftur og aftur í sögu Ríkisspítalanna að það hefur verið erfitt að veita þessu fólki eðlilega þjónustu. Og það hefur komið fyrir aftur og aftur í öðrum opinberum stofnunum að það er tilfellið. Ástæðan er sú að það er ekki til táknmálstúlkar. Það eru margir sem halda að í raun og veru séu þessir hlutir svo einfaldir að þá sé hægt að leysa með þeim hætti að ekki þurfi að hafa mikið fyrir því en það er misskilningur. Heyrnarlausir á Íslandi eru sjálfstæður málminnihlutahópur, menningarminnihlutahópur. Þeirra mál er ekki tungumálið íslenska heldur íslenska táknmálið og íslenska táknmálið er fullkomið fágað mál út af fyrir sig með ríkan orðaforða og þó nokkuð flókna málfræði. Þetta íslenska táknmál hefur verið að þróast að undanförnu og að þróun þess er unnið. Það er ekki langt síðan menn fóru að viðurkenna táknmál með þeim hætti sem nú er gert. T.d. var það fyrst gert í Svíþjóð árið 1980 að táknmálið var viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra þar í landi. Málvísindamenn byrjuðu ekki að rannsaka táknmál fyrr en árið 1960.
    Hér á landi er mikill fjöldi fólks sem á í erfiðleikum vegna þess að það vantar kennslu í táknmáli og táknmálstúlka. Það er talið að hér á landi sé um að ræða u.þ.b. 230--300 sem eru fæddir heyrnarlausir eða hafa misst heyrn sem börn eða unglingar. Þetta fólk mundi geta notað táknmál. Í öðru lagi eru heyrnarskertir frá fæðingu, verulega heyrnarskertir, 450--600 talsins. Þetta fólk notar einnig táknmál. Í þriðja lagi eru daufblindir sem eru taldir milli 35--40 hér á landi. Þeirra eina leið til skilnings við aðra er svokölluð snertitúlkun á táknmáli.
    Það er óhjákvæmilegt að undirbúin verði kennsla í táknmálstúlkun og þess vegna er þessi fsp. borin fram. Það hefur verið undirbúin kennsla í táknmálstúlkun í Háskóla Íslands og fsp. er þessi:
  ,,1. Hve miklum fjármunum verður varið til kennslu í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands á næsta ári samkvæmt tillögu menntmrn.?
    2. Hvenær hefst kennsla í táknmálstúlkun?
    3. Hvað er gert ráð fyrir að margir nemendur geti stundað nám í táknmálstúlkun á næsta ári?``