Umhverfismat á virkjunarframkvæmdum á Jökulsá á Fjöllum

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:51:23 (2420)

     Fyrirspyrjandi (Karen Erla Erlingsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Mikil umræða er í gangi um stórfelldar framkvæmdir í orkumálum. Þessi umræða snýst ekki aðeins um orkuframleiðslu til orkufreks iðnaðar hérlendis heldur einnig um stórfelldan útflutning á orku út í hinn stóra heim eftir sæstreng. M.a. má geta þess hér að borgarstjórn Reykjavíkur mun samkvæmt frétt DV frá 17. nóv. taka um það ákvörðun í dag hvort hún taki þátt í hagkvæmnis- og kostnaðarúttekt varðandi lagningu sæstrengs til Hollands. Talað er um að flytja allt að tvöfalt meiri raforku þangað en nú er notuð hér á landi. Eftir nauðsynlegar virkjunarframkvæmdir væri þá búið að virkja tæplega helming allrar þeirrar vatnsorku sem hagkvæmt er talið að virkja hér á landi.

    Talið er að orkuforði sá sem felst í hringrás vatnsins á Íslandi sé um 250 teravattstundir á ári. Landsvirkjun hefur sett fram það mat að hagkvæm nýtanleg orka nái aðeins um 30 teravattstundum á ári ef tillit er tekið til kostnaðar og í öðru lagi umhverfisverndar, ég endurtek, umhverfisverndar. Um 30% af þessari nýtanlegu orku er fólgin í vatnsföllum á Austurlandi og Norðausturlandi og kæmist í gagnið með tilkomu Austurlandsvirkjunar eða langstærsta draumsins, LSD, eins og fyrirbærið er almennt kallað. Nokkur mismunandi virkjunarkerfi koma til greina en sú hugmynd sem virðist njóta hvað mests fylgis, þá er samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga tekið tillit til umhverfisins, er að flytja Jökuls á Fjöllum og Jökulsá á Brú yfir í farveg Jökulsár í Fljótsdsal og virkja svo allt þar.
    Ég þarf varla að upplýsa þingheim um það hvers konar umhverfisspjöll verða framin nái þessi fyrirætlun fram að ganga. Jökulsá á Fjöllum á sem kunnugt er aðallega upptök sín í Brúarjökli og rennur til sjávar í Öxarfirði. Hún rennur í gegnum einn af þremur þjóðgörðum landsins, Jökulsárgljúfur, og vil ég geta þess að um þjóðgarða gilda ákveðin lög sem segja m.a. til um að við þeim skuli ekki hróflað á nokkurn hátt. Enn fremur er í Jökulsá á Fjöllum ein mesta náttúruperla landsins. Það er Dettifoss. Ef þessi virkjunarframkvæmd lítur dagsins ljós mun hann trúlega hverfa eða alla vega stórminnka.
    Þess má einnig geta í þessu samhengi að á hálendi Austurlands og Norðausturlands verður vart þverfótað fyrir uppistöðulónum og miðlunarskurðum. Það er e.t.v. ágætisráð að sökkva hálendinu bara í vatn til þess að koma í veg fyrir uppblástur. Því spyr ég hæstv. umhvrh. hvort fram hafi farið umhverfismat á hugsanlegum virkjunarframvæmdum á Jökulsá á Fjöllum. Ef svo er ekki þá spyr ég: Er slíkt mat væntanlegt?