Umhverfismat á virkjunarframkvæmdum á Jökulsá á Fjöllum

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:00:50 (2424)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrirspyrjanda fyrir fsp. vegna þess að ég held að það sé aldrei nóg af því gert að minna á umhverfismálin og að nauðsynlegt sé að taka þau með í reikninginn þegar menn meta hagkvæmni ýmissa framkvæmda. Okkur er mjög tamt að tala um það að við megum ekki skila kynslóðunum sem á eftir koma miklum erlendum skulum, við megum ekki eyða um efni fram og senda reikninginn á komandi kynslóðir. Það nákvæmlega sama á við og kannski enn frekar í umhverfismálum. Við megum ekki ganga svo á gæði umhverfisins að við skilum komandi kynslóðum mun verra landi en við tókum við. Við þurfum í rauninni að skila þeim betra landi.
    Ég vil í þessu sambandi minna á þær hugmyndir sem nú eru uppi um að leiða íslenska raforku um hund til Evrópu. Menn hafa talað um í því sambandi að það kosti 200--300 milljarða kr. sem eru tvöföld fjárlög íslenska ríkisins og það skapi um 300 störf hér á landi í 15 ár. Þetta er allt sem á að skapast í kringum þetta. Nú eru menn að fara í hagkvæmniskönnun á þessu á vegum borgarstjórnar Reykjavíkur. Þá held ég einmitt að mjög mikilvægt sé að hafa umhverfismálin inni í þeirri mynd.