Aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:07:28 (2427)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja það að tilefni þessarar fsp., sem ég ber fram til utanrrh. um aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu, er bréf sem formönnum þingflokka og utanrmn. Alþingis barst frá umræðuhópi um hjálp til júgóslavneskra barna en þessi umræðuhópur er starfandi á Seyðisfirði. Þarna tóku sig til nokkrir íbúar á Seyðisfirði sem ofbauð ástand mála í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og fannst að Íslendingar mættu láta meira að sér kveða í þeim málum. Þeir settust niður og lögðu á ráðin um það með hvaða hætti þeir gætu komið inn í þessi mál. Með leyfi forseta, langar mig til að lesa úr bréfinu en þar segir:
    ,,Vegna þess hörmulega ástands sem nú ríkir í löndum þeim eða landsvæðum sem áður voru Júgóslavía hefur myndast umræðuhópur á Seyðisfirði til að kynna sér þessi mál og um leið að reyna að gera sér grein fyrir hvernig koma mætti til hjálpar þeim sem þar verða verst úti, ekki síst börnum. Vitað er að ef ekkert verður að gert gætu hundruð eða þúsundir barna dáið á komandi vetri vegna næringarskorts, kulda og ónógrar aðhlynningar. Málið krefst bráðrar úrlausnar því að nú fer vetur í hönd syðra.``
    Síðan segir frá því að umræðuhópurinn hafi rætt þrjár hugsanlegar leiðir til hjálpar; fatasöfnun, peningasöfnun og að stofna stöðvar í öllum löndum þangað sem flytja mætti börn frá áhættusvæðum.
    Það sem út úr þessu frumkvæði íbúanna hefur komið er að nú hafa þessir íbúar náð sambandi við fólk í Króatíu og eru að leita sér þar að þorpi til þess að komast í vináttutengsl við. Þau eru byrjuð á fatasöfnun og nú hafa Reyðfirðingar, eftir því sem mér skilst, bæst í hópinn og ætla að gera eitthvað svipað, þ.e. leita sér að þorpi sem þeir geta aðstoðað með einhverjum hætti.
    Við stöndum núna andspænis einhverjum mesta flóttamannavanda í Evrópu sem um getur eftir seinni heimsstyrjöld. Það eru 1,8 milljónir manna á faraldsfæti í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og eiga tæplega höfði sínu nokkurs staðar að halla. 500 þúsund manns hafa flúið frá þessum svæðum til annarra ríkja í Evrópu og má í því sambandi nefna að Þýskaland hefur nú þegar tekið við 275 þúsund manns, Svíþjóð, eftir því sem mér skilst, um 40 þúsund manns og í Danmörku koma hundrað flóttamenn á hverjum degi, eftir því sem nýjustu fregnir herma, til þess að leita þar skjóls. Í Norrænu, sem kemur hingað til Íslands á hverju sumri, búa um þúsund flóttamenn frá fyrrum ríkjum Júgóslavíu þar sem hún liggur við festar við Islandsbrygge í Kaupmannahöfn. Nú hlýtur maður að spyrja vegna alls þessa hvað íslensk stjórnvöld hafa gert og hvað þau ætla að gera. Mér er kunnugt um að Kjartan Jóhannsson sat fund í Genf í júlímánuði þar sem rætt var um þennan flóttamannavanda og sú spurning vaknar auðvitað hvort Íslendingar þurfa ekki eins og aðrir að axla sína ábyrgð og taka á móti fólki. Ég spyr því:
  ,,1. Með hvaða hætti hafa íslensk stjórnvöld liðsinnt stríðshrjáðum íbúum í fyrrum ríkjum Júgóslavíu?
    2. Hvaða fyrirætlanir eru uppi meðal íslenskra stjórnvalda um að koma til hjálpar þeim tugþúsundum barna sem búa við stríðsátök, næringarskort og ónóga aðhlynningu á helstu átakasvæðum þessara ríkja, svo sem í Bosníu-Hersegovínu?``