Aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:23:24 (2432)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú lýsing sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. kemur heim og saman við það sem utanríkisráðherra Bosníu-Hersegovínu tjáði okkur á Evrópuþinginu síðast þar sem hann kom með neyðarkall fyrir hönd þjóðar sinnar og sagði að það væri verið að fremja þjóðarmorð í Bosníu-Hersegovínu. Hann bað um mat, klæði, byggingarefni, eldsneyti og annað það sem þeim mætti að liði verða. En hann sagði líka: Evrópa hefur yfirgefið okkur. Við eigum hvorki olíu né kjarnorkuvopn og það virðist vera það eina sem skiptir máli í heiminum í alþjóðastjórnmálum.
    Það er alveg ljóst að þarna er hræðilegt ástand og þetta fólk þarf nauðsynlega á aðstoð að halda, en við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvernig stendur á því að Evrópuríkin og Sameinuðu þjóðirnar ráða ekki yfir þeim tækjum að geta stöðvað þessi ósköp sem þarna eru á ferð? Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að menn verða að leggjast á eitt um að finna leiðir til þess að leysa þennan hræðilega vanda sem þarna er á ferð.