Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 13:46:32 (2441)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Í þessari þáltill. er lagt til að Alþingi skipi nefnd til að endurskoða nýsett lög um Lánasjóð ísl. námsmanna. Nefndinni er síðan ætlað að hafa hliðsjón af þeirri reynslu sem fengin er af lögunum nýsettu og þeim tillögum sem fram hafa komið á Alþingi og frá námsmönnum um breytingar á lögunum. Fyrst er rétt að taka fram, eins og áður hefur komið fram á Alþingi í vetur, að mér sýnist ótímabært að draga lærdóma af framkvæmd nýrra laga um LÍN nú þegar nýbyrjað er að vinna eftir þeim. Það er ekki hægt að fullyrða um áhrif laganna á fjölda námsmanna og framtíðaráform þeirra. Ég nefni það sem ég hef raunar gert fyrr að áður voru allir námsmenn sem þegið höfðu lán sjálfkrafa skráðir sem umsækjendur hjá LÍN. Nú hefur því verið breytt á þann veg að allir þurfa að sækja um. Enginn er skráður sjálfkrafa sem umsækjandi.
    Fækkun innritana í háskólann kann að eiga margar skýringar aðrar en þær að breyttar reglur LÍN komi þar til. Aðsókn í suma aðra skóla á háskólastigi hefur aukist. Það er ekki óeðlilegt að ætla að slíkt

hafi áhrif til fækkunar í Háskóla Íslands. Hækkuð innritunargjöld á háskólastiginu hafa áreiðanlega sín áhrif. Það hefur verið talið að tiltölulega stór hluti skráðra nemenda í Háskóla Íslands sé óvirkur, þ.e. skrái sig en stundi ekki nám. Um það eru til tölur. Augljóslega hlýtur hækkun innritunargjalda að valda fækkun í þessum hópi óvirkra nemenda. Mér segir svo hugur að þær tölur um nemendafjölda í háskólanum sem við höfum séð haust gefi réttari mynd af raunverulegum fjölda nemenda í skólanum en tölur fyrri ára.
    Mér þykir óneitanlega dálítið furðulegt að sjá því haldið fram í greinargerð með þessari þáltill. að við meðferð frv. um LÍN á Alþingi á síðasta vetri hafi öllum brtt. við frv., svo og öllum tillögum stjórnarandstöðunnar um samstarf og samvinnu milli hennar og ríkisstjórnarinnar um lagasetninguna, verið hafnað af ríkisstjórnarflokkunum. Flm. tillögunnar neyða mig til að rifja það upp, og ég tala þar sérstaklega til 1. flm., að ég lét reikna sérstaklega út áhrif hugmynda hans um endurgreiðslukerfið. 1. flm. vildi láta endurgreiðslur vera tekjutengdar fyrstu 25 árin en að eftirstöðvar yrðu greiddar upp ótekjutengt á næstu 15 árum þar á eftir. Þetta lét ég reikna sérstaklega því að ég vildi skoða allar hugmyndir og tillögur frá stjórnarandstöðunni ef það mætti verða til þess að hægt væri að ná sáttum um málið. Ég þarf ekki að minna hv. þm. á að niðurstaðan varð sú að kerfið, sem hann lagði til, var alveg ótækt, bæði fyrir sjóðinn sjálfan og ekki síður fyrir lánþegana, sérstaklega þá sem voru tekjulágir. Skipti þá engu hvernig reynt var að lappa upp á þessar tillögur. Ég minni á að það var horfið frá því að festa vaxtaprósentuna við 3% eins og var í frv. og ákveðið að hafa breytilega vexti allt að 3%. Hugmyndin um að festa ekki prósentuna var komin frá hv. þm. Svavari Gestssyni og það var tekið tillit til þess sem hann lagði til. Ríkisstjórnin ákvað síðan að vextirnir yrðu aðeins 1%.
    Ég minni einnig á að komið var m.a. til móts við námsmenn með því að kveða á um að þeir sem höfðu tekið lán bæði í gamla kerfinu og því nýja þyrftu ekki að greiða samhliða af lánum í báðum kerfum. Tekjutengingu endurgreiðslna var í meðförum þingsins breytt þannig að í stað þess að endurgreiðslur væru 4% fyrstu fimm árin og 8% eftir það var ákveðið að þær yrðu 5% fyrstu fimm árin og 7% eftir það. Það bætir hag lántakenda til lengri tíma litið.
    Í greinargerð með þáltill. eru talin fimm atriði sem legið hafi til grundvallar gömlu lögunum um LÍN frá 1982. Ég þarf ekki að taka það fram að flm. telja að frá öllum þessum fimm atriðum hafi nú verð vikið:
    ,,1. Að hlutverk lánasjóðsins væri að jafna aðstöðu manna til náms.`` Þetta markmið er óbreytt í núgildandi lögum. Það er markmið LÍN að tryggja mönnum jafna aðstöðu til náms án tillits til efnahags og það er tryggt í lögunum.
    ,,2. Að tekið væri tillit til aðstæðna námsmanna meðan á námi stæði.`` Í gildandi lögum er tekið ríkt tillit til aðstæðna námsmanna, m.a. fjölskyldustærðar, raunar mun meira tillit en hjá öðrum þjóðum.
    ,,3. Að við endurgreiðslu námslánanna að námi loknu skyldi tekið tillit til tekna lánþega.`` Þetta er gert í gildandi lögum. Endurgreiðslur fara algerlega eftir tekjum lánþega.
    ,,4. Að lánin skyldu ekki bera vexti.`` Hér var breyting gerð og kveðið á um að lánin skuli bera væga vexti, mun lægri en gerist á opnum markaði.
    ,,5. Að endurheimtuhlutfall lánanna skyldi vera sem hæst.`` Þetta er einmitt eitt af því sem misbrestur varð á í framkvæmd eldri laganna en reynt er að bæta úr með hinum nýju.
    Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem stóðu að samþykkt nýrra laga um LÍN á síðasta vori voru að bregðast við gífurlegum vanda sjóðsins og fyrirsjáanlegu rekstrarþroti hans. Þeir sem farið höfðu með málefni LÍN síðustu árin á undan höfðu umgegnist lánasjóðinn af fullkomnu kæruleysi og í raun vísað vandanum yfir á framtíðina. Það var gert með því að auka útlán sjóðsins stórkostlega á sama tíma og framlög til hans voru lækkuð. Það mátti öllum vera ljóst hvert stefndi. Lögin sem samþykkt voru í vetur sem leið eiga að tryggja áframhaldandi rekstur LÍN og að sjóðurinn geti eftir sem áður gegnt því hlutverki sínu að gera íslensku námsfólki kleift að stunda nám sitt án tillits til efnahags. Gjaldþrota lánasjóður tryggir engum jafnrétti til náms. Fjárhagslega öflugur lánasjóður er trygging fyrir því að aðrir en þeir einir sem eru efnameiri geti stundað nám við sitt hæfi.
    Ég hef víst varla tíma til þess að svara nokkru af því sem kom fram í ræðu hv. 1. flm. Ég vil aðeins geta þess varðandi Iðnskólann að þær fyrirætlanir skólans hafa verið leiðréttar. Skólinn mun því bjóða upp á fullt nám og nemendur fá þar af leiðandi fullt lán. Ég hef svarað því áður sem hv. þm. tiltók og sagði að stjórn lánasjóðsins hefði haft að engu. Ég hef svarað þessu öllu áður og skal gera það enn á ný í ræðu þá hér seinna. Ég hef ekki tíma til þess núna þar sem ræðutími minn er liðinn en ég geri það síðar í umræðunni.