Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:02:51 (2443)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér fer fram málefnaleg umræða um málefni lánasjóðsins. Það liggur fyrir og það er staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla að námsmönnum hefur fækkað og það meira að segja á tímum þegar þeim ætti frekar að fjölga vegna atvinnuástandsins. Rýrnandi og dvínandi atvinnuástand hefur yfirleitt leitt til þess að yngra fólkið hefur farið í ríkara mæli í skóla en yfirleitt áður.
    Ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að námsmönnum hefur fækkað og það sem við erum m.a. að reyna að gera í þessari málefnalegu umræðu er að komast að raun um hvers vegna. Þingmaðurinn talaði þannig að það væru einungis lögin um lánasjóðinn sem hefðu valdið því. Þannig skildi ég mál hans. Ekki skal ég á þessu stigi málsins draga úr því eða mótmæla því. En mig langar að varpa til

hans tveimur spurningum: Telur Svavar Gestsson að það séu einungis lögin sem valda fækkun námsmanna? Telur hann ekki að nýjar og gerbreyttar úthlutunarreglur hljóti líka að hafa dregið verulega úr fjölda námsmanna? Telur hann ekki líka að skólagjöld, sem hann var á móti í fyrra og fleiri voru á móti, hafi líka leitt til þess að menn hafi í minna mæli en ella farið í langskólanám?