Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:41:08 (2454)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um skuldbreytinguna. Það liggur ekkert fyrir um það. Í fyrsta lagi vil ég leggja á það áherslu.
    Í öðru lagi vil ég segja, virðulegi forseti, að ég óska hæstv. menntmrh. hjartanlega til hamingju með það að stjórn lánasjóðsins skuli hafa hlýtt honum. Það hefur tekið hann sex mánuði að fá stjórn lánasjóðsins til að hlýða sér og hygg ég að það séu fá dæmi um það að ráðherrar hafi verið jafnlangan tíma að koma vilja sínum fram að því er varðar stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Fyrir nokkrum dögum voru umræður um þessi mál í þessari stofnun þar sem hæstv. menntmrh. sagði að hann vildi að Iðnnemasambandið fengi áheyrnarfulltrúa í stjórn lánasjóðsins. Þá var formaður stjórnar lánasjóðsins á þingi. Þá sagði hann sem næsti ræðumaður á eftir menntmrh. að það væri mjög erfitt að taka Iðnnemasambandið inn í stjórn lánasjóðsins við þessar aðstæður. Það er með öðrum orðum bersýnilegt að formaður lánasjóðsins hefur staðið mjög hart gegn óskum menntmrh. í þessu efni. Ég skora á hæstv. menntmrh. að draga af þessu eðlilegan lærdóm sem er sá að setja af núverandi formann stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna vegna þess að framkvæmd hans á lögunum og framkoma hans við fulltrúa námsmanna hefur auðvitað verið með þeim endemum að það eru full rök til að skora á hæstv. menntmrh. að setja Gunnar Birgisson af sem formann stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna.