Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:42:39 (2455)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki orðið við þessari áskorun hv. þm. að setja Gunnar Birgisson af. Hann er góður og gegn maður og ekki síst í þessu starfi sínu sem formaður stjórnar lánasjóðsins.
    Það var ágreiningur á milli okkar um þetta atriði. Hann kom reyndar fram hér á Alþingi. Við höfum rætt þetta mál oftar en einu sinni. Núna fyrir tiltölulega skömmu ræddi ég þetta við fulltrúa ríkisins í stjórn lánasjóðsins og þar varð sú niðurstaða að Iðnnemasambandið skyldi fá fulltrúa í stjórninni. Ég bendi hins vegar á það að stjórn lánasjóðsins, og það var umdeilt atriði við meðferð málsins á þingi, fékk til muna meira vald en hún hafði haft samkvæmt fyrri lögum. Við gerðum þetta með alveg opnum augum þannig að ráðherra hefur ekki það vald yfir stjórninni sem hann hafði samkvæmt fyrri lögum. Ég tel það vera til bóta en það eru ekki allir á sama máli um það.