Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:55:53 (2459)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það hefur oft verið tekið upp mál utan dagskrár á Alþingi af minna tilefni. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími Hermannssyni fyrir að gera það nú, degi áður en formlega á að innsigla aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu, aukaaðild sem á að kosta Íslendinga 280 millj. kr. árlega ef ég hef numið rétt orð hæstv. utanrrh. Aðild sem felur í sér miklar skuldbindingar fyrir Ísland eftir því sem ráðherrann einnig greindi hér frá. Aðild þar sem aðeins níu ríki Evrópubandalagsins eru þátttakendur. Nú á að bæta þar við Íslandi, Noregi og Tyrklandi. Menn taki eftir söfnuðinum sem þarna er á ferðinni. Við skulum minnast þess að eitt af því sem var niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Danmörku og sem danska ríkisstjórnin í heild sinni hefur nú sett fram sem sína kröfu gagnvart samstarfsaðilum innan Evrópubandalagsins er það að Danmörk komi ekki nálægt þessu hermálasamstarfi innan Evrópubandalagsins. Alþb. hefur mótmælt áformum ríkisstjórnarinnar um aukaaðild Íslands að bandalaginu. Það hefur verið gert ítrekað og það hefur komið fram í utanrmn.
    Ég vil ítreka þessi mótmæli hér. Ég tel það með öllu fráleitt að ætla að fara að binda Íslendinga í þátttöku í þessu hernaðarsamstarfi eins og hér er lagt til. Við hljótum hér á Alþingi að vera algerlega óbundin af þessum ákvörðunum og taka þessi mál upp við fyrstu hentugleika til þess að hnekkja þeirri ákvörðun sem hér er verið að taka. Ég ráðlegg hv. þm. að kynna sér kaflann á bls. 20--21 í skýrslu utanrrh. til Alþingis þar sem fram kemur m.a. að aukaaðild í þessu hernaðarsamstarfi sé hliðstæð aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði á viðskiptasvæðinu. Það er nú ekkert minna og þessu á að smeygja nánast þegjandi upp á íslenska þjóð og Alþingi Íslendinga. En við því verður að auðvitað brugðist.