Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:59:19 (2461)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að taka þetta mál upp hér sem ég held að sé mjög brýnt. Ég vil vekja sérstaka athygli á því hversu svör hæstv. utanrrh. voru rýr. Það er ljóst og hefur komið fram í utanrmn. og kemur fram aftur hér að það vantar algerlega rök fyrir aðildinni að Vestur-Evrópusambandinu. Engin haldbær rök hafa komið fram.
    Það eina sem ég sé í þessu máli, ég horfi kannski á það dálítið öðrum augum en upphafsmaður þessarar umræðu, hv. 7. þm. Reykn., er að ég held að það sem þarna er á ferðinni sé að NATO-ríkin þrjú, Tyrkland, Ísland og Noregur, ætli sér í raun og veru að vera augu og eyru Bandaríkjamanna inni í þessu bandalagi. Það sé það sem málið snúist um. Ég vil bara nefna þá áherslu sem hér er lögð á það að þetta hrófli í engu við Atlantshafssáttmálanum, bæði í gögnum sem við höfum fengið í utanrmn. og í umræðunni hér.
    Hvað varðar aðild að varnar- eða hernaðarbandalögum þá verður auðvitað að réttlæta þau eða rökfæra út frá varnar- og öryggishagsmunum Íslendinga. Það hefur ekki verið gert hér. Ég hef ekki heyrt það og hef ég þó lagt eyrun eftir því í þessari umræðu.
    Árið 1918 þegar Íslendingar lýstu yfir ævarandi hlutleysi þá gerðu þeir það út frá þeirri heimsmynd sem þá blasti við. Síðan að stríðslokum var ákveðið að gerast aðili að NATO og gera herstöðvarsamning. Það var réttlætt, ég segi réttlætt, með átökum risanna í austri og vestri, að staða Íslands á landakortinu gerði þetta nauðsynlegt. Hins vegar blasir ný heimsmynd við núna og menn verða að skilgreina öryggishagsmuni okkar upp á nýtt út frá þeirri heimsmynd en ganga ekki inn í þessi bandalög sem fyrir eru. Það mætti segja mér að ef við færum að skoða þessa öryggishagsmuni upp á nýtt þá kæmumst við að því að það væri kannski hlutleysi sem samræmdist best stöðu okkar í heiminum eins og hann lítur út í dag.
    Ég vil bæta við í þessari umræðu af því að ég held að það hafi verið Hans-Dietrich Genscher sem sagði að nú þyrfti að byggja öryggisstefnuna á efnahagsmálum, þá vil ég segja að það þarf að byggja öryggisstefnuna á umhverfismálum. Það er eitt brýnasta hagsmunamál okkar Íslendinga núna.
    Að lokum, virðulegur forseti, vil ég koma því á framfæri að landsfundur Kvennalistans sem haldinn var nýverið mótmælti aðildinni að Vestur-Evrópusambandinu. Ég vil koma þeirri spurningu á framfæri við stjórnarflokkanna hvort þessi aðild hafi verið samþykkt í þingflokkunum, þ.e. að Íslendingar mundu ganga inn í þetta hernaðarbandalag, hvort t.d. þingflokkur Alþfl. hafi samþykkt þetta.