Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:10:39 (2467)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Við höfum nú fengið smáinnsýn í vinnubrögðin í þingflokki Sjálfstfl. þar sem það er þannig að ef menn gera ekki hávaðaathugasemdir við bókanir þá þýðir þögn sama og samþykki. Það er nú bersýnilegt að það fer eitthvað á milli mála við afgreiðslu þessa máls í þingflokki Sjálfstfl. Það er bersýnilegt og það er einnig athyglisvert að það hafa engar sérstakar upplýsingar, eftir spurningar hv. þm. Páls Péturssonar, komið fram um það hvernig þetta mál hefur verið afgreitt í þingflokki Alþfl. og auðvitað full ástæða til þess að draga það í efa að stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli njóti þingmeirihluta og því óhjákvæmilegt að leita leiða til þess að það verði kannað því að hér er um að ræða svo stórt og alvarlegt mál að útilokað er að láta hér við sitja.
    Kjarni þessa máls er sá sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. áðan að aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu, sem hér er verið að ræða um, mundi ekki aðeins tengja Ísland Evrópusamstarfinu á sviði

öryggis- og varnarmála með hliðstæðum hætti og EES mundi tengja Ísland við Evrópusamstarfið á sviði utanríkisviðskiptamála. Með öðrum orðum, hér er í raun og veru um að ræða hernaðarlegu hliðina á EES-tillögunum. Það er nauðsynlegt fyrir menn að gera sér grein fyrir því og þeir sem draga það í efa skulu lesa skýrslu utanrrh. Á bls. 21 í skýrslu utanrrh. kemur þetta skýrt fram.
    Ég hygg að það sé nefnilega alveg hárrétt sem hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan að besta leiðin fyrir Ísland við þessar aðstæður væri auðvitað hlutleysi þannig að Ísland héldi sig fyrir utan þessar sviptingar, m.a. fyrir utan þetta bandalag hvort sem um er að ræða aukaaðild eða aðalaðild að því. Mín skoðun er reyndar líka sú að óhjákvæmilegt sé fyrir Íslendinga að halda sig fyrir utan Evrópubandalagið og einnig fyrir utan það bandalag sem heitir EES og er eins og þetta skref inn í Evrópubandalagið. Ég tel þess vegna að það væri rökréttasta niðurstaðan í framhaldi af ábendingum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, ekki einasta að hafna þessu heldur líka að hafna aðild að Evrópsku efnahagssvæði.