Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:23:41 (2472)

     Jón Helgason (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég vildi beina þeim eindregnu tilmælum til forseta Alþingis og reyndar ríkisstjórnar að taka það til gaumgæfilegrar athugunar hvort hér sé ekki verið að brjóta allar þingræðisvenjur og hefðir. Hér segir hæstv. utanrrh. að það sé verið að binda okkur pólitískum böndum við hluta af Evrópubandalaginu og ef það á að gera það með undirskrift utanrrh. án þess að um málið sé fjallað á hv. Alþingi, án þess að stór hluti þingmanna hafi hugmynd um þetta og virðist vera vafasamt mjög að meiri hluti sé fyrir, þá dreg ég það í efa að svona vinnubrögð standist þá lágmarkskröfu sem verður að gera til framkvæmda á þingræðisreglum.