Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:24:55 (2473)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég óskaði eftir að ræða þingsköp þegar ljóst var að forseti meinaði þingmanni, hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að taka þátt í umræðunni sem nú hefur rætt hér um þingsköp. Nú vil ég ekki leggja mat á tímamælingu forseta, ég vefengi það ekki að hálftími hafi verið liðinn. Hins vegar er hér um svo mikilsvert mál og sérstætt að ræða eins og það kemur fram gagnvart Alþingi að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að hér sé verið að takmarka ræðutíma með þeim hætti sem gert er. Og ég vil skora á forustu þingsins að fara nú þegar yfir þetta mál með tilliti til stöðu Alþingis Íslendinga. Ég skora á forustu þingsins, forsætisnefndina, að fara nú þegar yfir þetta mál með tilliti til stöðu Alþingis Íslendinga gagnvart framkvæmdarvaldinu sem ætlar sér á morgun að binda Ísland pólitískt inn í hernaðarsamtök með aukaaðild þar sem skilyrðin liggja ekki fyrir, Alþingi hefur ekki séð þau og þar sem óvissa er um það hvort stuðningur er á Alþingi við þetta. Mér finnst að það hljóti að vera verkefni forustu þingsins að taka nú þegar á þessu máli og tryggja að það sé a.m.k. ljóst hver þingviljinn er áður en utanrrh. Íslands eða fulltrúi hans skuldbindur landið í svo stóru og mikilsverðu máli. Ég treysti hæstv. forseta til að taka á þessu máli með forsætisnefnd.