Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:27:19 (2475)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Örstutt athugasemd áður en frú forseti yfirgefur stólinn. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil láta það koma fram að þegar ég óskaði eftir henni fyrir hönd þingflokksins í morgun. að þá óskaði ég eftir hálftíma umræðu og vonaðist til að hún dygði. Reynslan hefur hins vegar sýnt að þetta mál þarf að ræða miklu ítarlegar. Það hefur komið fram í þessum umræðum að tveir af þingmönnum Sjálfstfl., þar á meðal annar þeirra sem er reyndastur í utanríkismálum, styðja ekki þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ég verð að krefjast þess að áður en hæstv. utanrrh. skrifar undir eitt eða neitt eða lætur skrifa undir verði samningurinn, svo og bókanir honum tengdar, hvort sem þær eru pólitískt bindandi eða ekki, lagðar fram í hv. utanrmn. og teknar þar til umræðu. Enn fremur að þá fari fram umræða á Alþingi og ákvörðun um þetta mál verði tekin með þingræðislegum hætti. Hér hefur ekki verið farið eftir þingræðislegum vinnubrögðum og það ber að harma.
    Ég ítreka kröfu mína um það að málið hljóti umfjöllun í utanrmn. áður en fleira verður gert af hálfu Íslands í málinu.