Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:38:38 (2482)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég held að sú ósk sem hér hefur komið fram eigi fullkomlega rétt á sér, að utandagskrárumræðan sem hér fór fram áðan hefjist að nýju. Ég vil benda hæstv. forseta á að þetta er ekki dagskrármál. Þó að umræðunni hafi verið lokið er það á valdi forseta að hefja hana að nýju. Forseti getur ákveðið það og sem einn af þeim þingmönnum sem sitja í forsætisnefnd þingsins vil ég leyfa mér að fara fram á það við hæstv. forseta að orðið verði við ósk hv. 5. þm. Reykv., ekki síst þar sem mér skilst að hann sé á förum út af þingi. Hann er ýmsum öðrum kunnugri þessum málum hér á hinu háa Alþingi og ég held að það sé alfarið í valdi hæstv. forseta að hefja umræðuna að nýju eins og farið var fram og standi hún næstu 20 mínúturnar. Dagskrá þingsins ruglast ekki á nokkurn hátt. Mér er ljóst að ef þetta væri skráð dagskrármál væri ekki hægt að hefja málið að nýju. Það er algerlega í valdi hæstv. forseta að gera svo. Ef forseti kýs getur hann auðvitað leitað sér samþykkis þingsins.