Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:40:48 (2484)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með það að hv. þm. Guðrúnu Helgdóttur fer nokkuð fram í mannasiðum. Síðast þegar þessi mál voru til umræðu, ég var þá fjarstaddur, þótti henni sæmandi að fara þeim orðum um mig að ég hefði ekki þorað að vera viðstaddur umræðuna og hefði þess vegna sett inn varamann þegar staðreyndin var sú að ég var á leið til Alaska í ferð sem hafði verið skipulögð með um það bil sex mánaða fyrirvara. Þetta vildi ég að kæmi hérna fram. En vegna þess að þingmanninum fer svo hratt fram í mannasiðum mun hún vitaskuld koma hér upp og biðjast afsökunar á þessu en hún er næst á mælendaskrá.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að með þeirri tillögu sem hér er flutt hef ég mikla samúð. Ég vil líka segja það að þau dæmi sem hér hafa verið rakin af hv. þm. Finni Ingólfssyni hljóma í mínum eyrum næsta sannfærandi. Ég held að þau gefi fyllilega tilefni til að þetta mál verði kannað niður í kjölinn. Ég vil að vísu lýsa því yfir hér að ég tel á þessu stigi ekki fært af minni hálfu að gefa um það yfirlýsingu hvort ég muni fylgja málinu vegna þess að innan Alþfl. hafa, eins og málflytjendur vita, verið miklar deilur um þetta mál, og í gangi er vinnuhópur um málið. Það hefur orðið sammæli okkar sem erum

að vinna að þessum málum þar að við munum bíða með það fram yfir áramót þegar niðurstaða liggur fyrir að taka ákvarðanir sem varða þessi mál. Ég vil hins vegar staðfesta það sem hér hefur komið fram að bæði Samband ungra jafnaðarmanna og flokksþing Alþfl. hafa tekið mjög afdráttarlausa afstöðu í þessum málum. Það var ekki síst sökum þess sem vinnuhópurinn var settur á laggirnar.
    Ég vil hins vegar líka, virðulegi forseti, lýsa þeirri skoðun minni að þótt margt megi vafalaust finna að þessum lögum megi um það deila hvort 6. gr., greinin um eftirágreiðslurnar, sé í rauninni versta greinin. Ég held, eins og kom fram þegar menn voru að vinna að þessum málum í fyrra, að það sem kann e.t.v að reynast erfiðast til frambúðar, sér í lagi menntamönnum framtíðarinnar, séu reglurnar um endurgreiðslurnar. Það kom fram í umræðum þá af minni hálfu að ég teldi að til frambúðar þyrfti að skoða þetta betur. Ég er sannfærður um að það verður nauðsynlegt á næstu árum að gera það, a.m.k. þetta atriði. Þetta tel ég óhjákvæmilegt að komi hér fram.
    Ég vil líka lýsa þeirri skoðun minni, virðulegi forseti, að ég tel að sú mikla áhersla sem málflytjendur hafa í dag lagt á það að það hafi verið lögin, lagasetningin sem slík, einkum og sér í lagi 6. gr., sem hafi fækkað námsmönnum jafnmikið og raun ber vitni --- talan 700 er hér nefnd og ég rengi hana ekki --- að ég dreg í efa að svo sé. Ég held miklu frekar, virðulegi forseti, að það séu m.a. skólagjöldin, en ég var einn af þeim sem lagðist harkalega gegn þeim innan míns flokks og hér á hinu háa Alþingi, ekki síst vegna þess að ég taldi að þau mundu draga mjög úr þeim hvata sem er hjá tilteknum hópum námsmanna til þess að sækja nám. Ég byggi hér á nokkurri reynslu. Fyrir utan það að hafa komið víða við í atvinnulífinu, þá var ég lektor við Háskóla Íslands í eitt ár, kenndi einkum í þessum greinum sem stundum eru nefndar kvennagreinar. Ég varð var við það að í þeim hópi sem sótti þá nám voru konur sem voru komnar á miðjan aldur og sóttu námið með barnauppeldi, vinnu og höfðu greinilega mikinn áhuga á því að sækja háskólanám. Því miður varð það reynsla mín að þær áttu talsvert örðugt með það og heltust fyrr og í meira mæli úr lestinni en aðrir hópar námsmanna. Ég hygg að skólagjöldin verði þess valdandi að þessi hópur kvenna muni hugsa sig um tvisvar áður en hann fer í nám og borgar þessar 20 þús. kr.
    Ég tel líka, virðulegi forseti, að úthlutunarreglur og breytingar á þeim, hlutir sem varða auðvitað miklu en koma ekki til kasta þingsins, skipti þarna verulega miklu máli. Ég tel að þær upplýsingar sem liggja fyrir sýni það alveg ótvírætt að þær þarf að skoða mjög gaumgæfilega. Ég hefði talið að það væri rökrétt í ástandi eins og núna þegar atvinnuleysi eykst að sókn í skólana mundi aukast. Ég hefði talið að það væri rökrétt. Við sjáum hið gagnstæða. Það hljóta að vera ástæður fyrir því sem þarf að kanna.
    Menn hafa í umræðum lýst því yfir að það komi sérstaklega fram að konum fækki í námi. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kannað þetta til hlítar. Þó sá ég við lestur á umræðum sem fóru fram þegar ég var í Alaska að hv. varaþingmaður Gunnar Birgisson, stjórnarformaður lánasjóðsins, upplýsti að konur hefðu árið 1988 verið 47% af lánþegum LÍN, 48% 1989, 1990, 1991 og 1992 voru þær 49%. Síðan sagði stjórnarformaðurinn að hann teldi að hlutfallið fyrir komandi ár, 1993, gæti orðið svipað. Ég las úr máli hans þá efnislegu niðurstöðu að hann vísaði því algerlega á bug að breytt lög hafi leitt til þess að konum hafi hlutfallslega fækkað.
    Nú tel ég að það sé ekki rétt að skoða heildarhlutfall kvenna þegar menn eru að líta á þetta, ekki ef menn ætla að fá marktæka niðurstöðu. Menn eiga að líta á hlutfall kvenna á meðal nýnema fyrst og fremst. Á meðal nýnema hefur konum verið að fjölga. Þær komust fyrst yfir 50% árið 1986. Síðan hefur hlutfall þeirra vaxið jafnt og þétt. Það er auðvitað ljóst að sú þróun getur ekki haldið áfram. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að þeim jafnvel fækki eitthvað. Á þessu ári hefur þeim fækkað niður í 55%. En ef við lítum hins vegar á tölur yfir hlutfall kynjanna meðal nýnema erlendis, sem ég hygg að sé marktækara, þá kemur það fram að árið 1990--1991 voru konur 45% og núna hefur þeim fækkað um svipað hlutfall og við Háskóla Íslands, þ.e. þær eru 41%.
    Það er lítill efi í mínum huga um að það eru breyttar aðstæður námsmanna sem valda þessu. Ég tel það a.m.k. á þessari stundu. Það sem mig greinir e.t.v. á við ýmsa sem hér hafa talað er hvað það er sem veldur þessu. Ég tel þó að vera kunni að lögin, ákvæði um endurgreiðslur og eftirágreiðslur ráði miklu, ég get ekki sagt hve miklu, þá er ég sannfærður um að breyttar úthlutunarreglur, einkum og sér í lagi breyttur fjölskyldustuðull og breytt tillit til námsmanna í veikindum, einkum þegar um er að ræða veikindi barna, skipti þarna miklu meira máli. Ég verð að segja það. Það er bara mín ærleg skoðun --- og skólagjöldin. Ekki síst breytingin á fjölskyldustuðlunum.
    Ég segi það aftur um þessa tillögu að ég hef fulla samúð með henni. Ég hef fyrirvara með það að lýsa yfir hvaða niðurstöðu ég tek að lokum. Við vinnum að þessu máli eftir okkar hætti og okkar leiðum í Alþfl. eins og þið sjáið af þeim upplýsingum sem ég hef hér komið fram með. Við viðum að okkur gögnum og á grundvelli þeirra munum við einstakir þingmenn og þingflokkurinn ná niðurstöðu í þessu máli.
    Hvað varðar þessa tillögu þá tel ég í sjálfu sér að hún komi fram á ákaflega heppilegum tíma núna tiltölulega skömmu fyrir jól. Ég geri ráð fyrir því að umræðu verði lokið í dag eða næstu daga. Hún fer til nefndar og ég tek undir með menntmrh. þegar hann segir: Það er erfitt í dag að draga óyggjandi niðurstöður af því hvernig málið hefur þróast. Hann hefur sagt að það komi ekki í ljós fyrr en eftir áramót. Ég hef tilhneigingu til þess að vera honum sammála og vil alla vega láta njóta velvildar vafans. Ég tel að einmitt í umfjöllun menntmn. munu þær upplýsingar koma fram sem sýna það betur en í dag hvernig þetta

mál hefur þróast í kjölfar þeirra laga sem samþykkt voru í fyrra.