Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:53:43 (2488)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er dæmalaust hversu lengi maður þarf að tala um þetta mál áður en menn byrja að skilja það sem verið er að tala um. Eftir hvaða afleiðingum og árangri eru menn að bíða? Hvort nemendum fækkar? Ætla menn að rannsaka hvort nemendur eru grennri eða hvað ætla menn að rannsaka? Það er ekki hægt að tala um námsmenn eins og einhvern óskilgreindan hóp. Hér eru á ferðinni mál sem varða örlög hvers einstaklings sem ætlar sér í nám og það er verið að fara illa með þessa nemendur. Það er mergurinn málsins.
    Menn tala hér með mikilli skelfingu um að það þurfi að taka 3 milljarða lán þetta árið og 3,5 milljarða næsta ár. Fulltrúar þess stjórnmálaflokks sem er búinn að sólunda eigum almennings með slíkum endemum --- hafa menn hugsað út í að 3 milljarðar eru bara eitt stykki Perla, eitt stykki ráðhús. Mennirnir sem eru búnir að setja Hitaveitu Reykjavíkur á hausinn, eitthvert ríkasta fyrirtæki í landinu, og sjálfa Reykjavíkurborg, og tala svo eins og það sé að kasta peningum að leggja 3 milljarða í það að halda uppi öflugu menntakerfi í landinu. Ég held að það sé mikill munur á gagni þeirra fjárfestinga og ég held að menn ættu kannski að reyna að hugsa ofurlítið um það. Eins og margoft hefur komið fram eru námsmenn ekki að fjárfesta í eigin eign heldur samfélagsins alls. Sú menntun sem nemendur afla sér er auðvitað eign okkar allra og auðvitað á okkur að vera það gleðin ein að taka þátt í að þeir geti veitt okkur þann munað sem góðri menntun fylgir.
    Þessar heildartölur um hvort nemendum hefur fjölgað eða fækkað koma mér afskaplega spánskt fyrir sjónir. Börnunum mínum sem eru í námi fækkar ekki neitt. Þau verða bara blankari og ég þarf að borga meira. ( Gripið fram í: En verðbólgan?) Fyrir nú utan að það er auðvitað verið að vinna að aukinni fátækt okkar allra vissulega. Það er rétt hjá hv. þm. Ég ætla ekki að gleyma því að biðja þingmanninn afsökunar. Mér var ljóst að þingmenn fara víða um til að sinna skyldustörfum sínum en einhvern veginn hafði mér aldrei dottið Alaska í hug þannig að ég hafði ekki hugmynd um að hv. 17. þm. Reykv. væri staddur í Alaska þegar umræðan fór fram. Ég hefði sent honum kveðju mína hefði ég vitað það þá. En mér er ljúft og skylt að biðja afsökunar á dylgjum mínum um að hann hafi ekki þorað að vera í þingsal.
    Ég held, hæstv. forseti, að við þurfum öll og í mikilli vinsemd að endurskoða afstöðu okkar til mennta og menningar í þessu landi. Það er ekki bara verið að skera niður lánasjóðinn. Það er líka verið

að skera niður allt skólakerfið í landinu. Ég var rétt að lesa hér The European, sem ný er út komið, þar sem verið er að tala um Bandaríkin. Ég las það af áhuga vegna þess að ég var að koma þaðan. Þar er talað um hina kvalafullu --- nú kann ég ekki íslenskt orð yfir ,,midlife crisis`` en það er sú kreppa sem fólk lendir oft í á miðjum aldri þegar því finnst líf sitt kannski ekki hafa náð því takmarki sem ætlað var. ( ÖS: Við þekkjum hvorugt.) Við þekkjum það hvorugt nei, sem betur fer. En kvalafull kreppa Bandaríkjanna. Í hverju liggur hún? Hún liggur í uppblásinni sjálfsánægju Bandaríkjamanna með mesta ríki í heimi eins og maður heyrir í sjónvarpi þrisvar á dag. Auðvitað er þessi kreppa kvalafull vegna þess að þeir vita að þetta er blekking. Af hverju er þetta blekking? Af því að samfélagið er að hrynja. Heilbrigðiskerfið er hrunið, skólakerfið er hrunið, samgöngukerfið er hrunið. Við manni blasa fátækrahverfi sem líkjast engu þar sem búa milljónir manna.
    Íslendingar eru sem betur fer ekki komnir á þetta stig og ég vona að það gerist aldrei. En það er svo óhuggulega stuttur tími sem þarf að líða til að svona ástand skapist og hnignunin í Bandaríkjunum er ömurleg á að líta. Ég vona að hinn nýi forseti Bandaríkjanna trúi því sjálfur að hann geti úr bætt, enda býst ég við að hann hafi verið kosinn þess vegna og það væri óskandi. En því þjóðfélagi sem heldur ekki uppi menntun í landinu hnignar fyrr en menn órar fyrir og það gæti vel gerst í okkar tíð.
    Ég vil enn og aftur biðja hæstv. ráðherra að setjast niður með þeim sem láta sig þessi mál varða og leiðrétta í fyrsta lagi þær fáránlegu úthlutunarreglur sem teknar hafa verið upp. Það er því miður alveg satt að orð ráðherrans í umræðunni í fyrra hafa öll verið gerð ómerk. Það er hárrétt hjá hv. 11. þm. Reykv. Ráðherrann sagði þá að það yrði lánað fyrir ferðalögum nemenda til útlanda. Ég var sjálf að sækja 40 þús. kr. af 100 þús. kr. fargjaldi fyrir þrjá, ódýrasta fargjaldi sem ég gat fengið, frá Chicago til Reykjavíkur og til baka. 40 þús. kr. fékk ég af 100 þús. kr. Ráðherrann ætlaði áreiðanlega ekki að segja ósatt en því miður hefur farið svo að hann gerði það. Allt það sem hv. 11. þm. Reykv. taldi hér upp er hárrétt. Það er ekki greitt nema brot af því sem okkur var lofað í fyrra. Það er ömurlegt að standa við hliðina á gömlum þreyttum verkamanni, eins og kom fyrir sjálfa mig, sem var að fá marglofað bankalán út á lánshæfan nemanda og það fyrsta sem hann var spurður að var hvort hann ætti íbúð. Það kom í ljós að hann átti hana ekki og þess vegna var nafn hans ekki tekið gilt á víxil.
    Þetta er staðan sem búið er að setja fólk í og ef hæstv. ráðherra kallar þetta jafnrétti til náms, þá held ég að skilgreina þurfi jafnrétti upp á nýtt. En stjórnarformann lánasjóðsins munar kannski ekki mikið um það því að ég fékk betur séð þegar hann hélt ræðu sína hér að hann væri líka búinn að skilgreina upp á nýtt hvað væru konur því að niðurstaða hans kemur ekki heim og saman við neitt sem heilbrigð skynsemi sýnir manni svo að óyggjandi er.